Kristján Ottósson áttræður á morgun - Stýrir ennþá Lagnafélaginu
Hann er einn aðalfrumkvöðull að stofnun Lagnafélags Íslands árið 1986 og fyrsti formaður þess og framkvæmdastjóri frá upphafi. Hann hefur verið ritstjóri og ábyrgðarmaður bæði Lagnafrétta og fréttabréfs félagsins frá stofnun þess, og liggja margar greinar eftir hann í báðum ritunum, auk fjölda annarra blaðagreina.
„Þegar Lagnafélagið var stofnað 1986 var ástandið þannig að iðnaðarmenn og hönnuðir töluðust ekki við, voru feimnir hvorir við aðra. Þetta var stórt vandamál. Lagnafélagið opnaði þessa rás og nú vill enginn fara til baka. Það eru allir vinir eins og þar stendur,“ en að Lagnafélaginu koma allar þær fagstéttir sem vinna að lagnamálum.
Kristján var einn aðalhvatamaður að stofnun Tölvutæknifélags Íslands árið 1991, varaformaður og framkvæmdastjóri fyrstu fjögur árin og það var einnig fyrir tilstuðlan og eldmóð Kristjáns að Lagnakerfamiðstöð Íslands var stofnuð árið 1999. Kristján var framkvæmdastjóri miðstöðvarinnar frá upphafi, þar til hún var gefin Tækniskólanum, skóla atvinnulífsins, árið 2009. Það er ekki síst fyrir tilstuðlan Kristjáns að fjöldi ráðstefna og fyrirlestra á sviði lagnamála hefur verið haldinn hér á landi. Í áraraðir fór Kristján sem fararstjóri lagnamanna á fagsýningar erlendis.
Áður en Kristján varð framkvæmdastjóri Lagnakerfamiðstöðvarinnar rak hann Hita- og loftræstiþjónustuna ehf. frá 1988 til 2000 í 12 ár. Kristján hefur unnið mikið að félagsstörfum og var m.a. formaður Félags blikksmiða árið 1972-1984, en hann er blikksmiður og vélstjóri að mennt. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og félagsmál og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu af forseta Íslands, 17. júní 2013.
Kristján er kvæntur Þóru Hafdísi Þórarinsdóttur, fyrrverandi bankastarfsmanni, og eignuðust þau fjögur börn, þrjár dætur og einn son.
Kristján fæddist í Svalvogum í Dýrafirði og þau hjónin eiga hús á Þingeyri.
„Við erum eins mikið hérna og við getum, erum hér í júní, júlí, ágúst og september. Við erum að dytta að húsinu og þjóna trjánum og blómunum. Trén eru orðin tólf metra há síðan við plöntuðum þeim en það var ekki eitt einasta tré hérna þegar við keyptum húið árið 1994.“
Í tilefni af afmæli Kristjáns verður veisla í samkomuhúsinu á Þingeyri á morgun og hefst hún kl. 4.
Morgunblaðið laugardagurinn 15. júlí 2017.