A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
06.11.2016 - 20:45 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Kratar í kreppu

« 1 af 2 »

Fylgishrun Samfylkingarinnar í tvennum síðustu alþingiskosningum sætir miklum tíðindum.

Flokkur sem vera átti breiðfylking vinstrimanna á Íslandi hefur farið úr 29,8% fylgi niður í 5,7% á einungis sjö árum.

Hafði mest 20 þingmenn en hefur nú þrjá. 

 

Í ár eru hundrað ár liðin frá stofnun Alþýðuflokksins og bauð þessi fyrsti jafnaðarmannaflokkur á Íslandi í fyrsta skipti fram í alþingiskosningunum 1916. Fékk þá 5,95% atkvæða sem er sjónarmun meira en Samfylkingin, arftaki Alþýðuflokksins, hlaut í kosningunum um liðna helgi, eða 5,7%. Það er næstversta útkoma þessara tveggja flokka í sögunni; aðeins gekk verr í þingkosningunum 1919, þegar Alþýðuflokkurinn fékk einungis 4,47% atkvæða og kom ekki manni að í fyrsta og eina skiptið.

 

Auk Alþýðuflokksins stóðu þrír stjórnmálaflokkar að stofnun Samfylkingarinnar um aldamótin; Alþýðubandalagið, Kvennalistinn og Þjóðvaki en síðastnefndi flokkurinn hafði orðið til árið 1994 þegar Jóhanna Sigurðardóttir klauf sig út úr Alþýðuflokknum. Hann sameinaðist raunar þingflokki Alþýðuflokksins tveimur árum síðar. Alþýðubandalagið var arftaki Sósíalistaflokksins, lengst til vinstri á hinu pólitíska rófi. Kvennalistinn bauð fyrst fram 1983 en tilgangur þess framboðs var öðru fremur að auka veg kvenna í íslenskum stjórnmálum.

 

Yfirlýst markmið með stofnun Samfylkingarinnar var að sameina vinstrimenn á Íslandi og búa til breiðfylkingu sem gæti mögulega orðið stærri en Sjálfstæðisflokkurinn sem strax varð yfirlýstur höfuðandstæðingur flokksins.

 

Í fyrstu alþingiskosningunum, 1999, vantaði nokkuð upp á að það markmið næðist. Samfylkingin hlaut þó 26,8% atkvæða á móti 40,7% Sjálfstæðisflokksins. Hinn nýi flokkur fékk 17 menn kjörna sem var meira en Alþýðuflokkurinn hafði nokkru sinni fengið. Langbesti árangur hans var 14 þingmenn árið 1978 undir forystu Benedikts Gröndals. Frá stofnun lýðveldisins bjó Alþýðuflokkurinn iðulega að 5 til 10 þingmönnum. Í síðustu kosningunum sem hann bauð fram, 1995, fékk hann 7 menn kjörna.

 

Rauf 30% múrinn

 

Ekki má gleyma því að Samfylkingin klofnaði strax í upphafi þegar hluti gamla Alþýðubandalagsins stofnaði Vinstrihreyfinguna - grænt framboð. Sá flokkur fékk ríflega 9% atkvæða 1999 og er nú orðinn mun stærri en Samfylkingin, með 15,9% fylgi í kosningunum fyrir viku og 10 menn kjörna. 7 fleiri en Samfylkingin.

 

Í alþingiskosningunum 2003 saumaði Samfylkingin duglega að Sjálfstæðisflokknum, hlaut 31% en höfuðandstæðingurinn 33,7%. Í þeim kosningum fengu jafnaðarmenn í fyrsta sinn 20 menn kjörna á þing.

 

2007 dró aftur í sundur með flokkunum, Samfylkingin fékk 26,8% atkvæða á móti 36,6% Sjálfstæðisflokksins. Eftir þær kosningar mynduðu þessir flokkar í fyrsta og eina skipti saman ríkisstjórn. Sitt sýndist hverjum um þann gjörning, bæði á vinstri- og hægrivængnum.

 

Hálfu öðru ári síðar hrundu viðskiptabankarnir einn af öðrum með tilheyrandi hremmingum fyrir þing og þjóð. Ríkisstjórnin féll og boðað var til kosninga tveimur árum áður en kjörtímabilinu átti að ljúka.

 

Ekki varð Samfylkingunni sérlega meint af setu sinni í »hrunstjórninni« svokölluðu; alltént rættist draumur hennar í kosningunum 2009 - hún varð stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi. Hlaut 29,8% á móti 23,7% Sjálfstæðisflokksins. Öðru sinni fékk flokkurinn 20 þingmenn.

 

Fyrsta meirihlutastjórnin til vinstri í sögu lýðveldisins varð til í framhaldinu með aðild Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Alþýðuflokkurinn hafði áður setið einn í tveimur minnihlutastjórnum, 1958-59 og 1979-80.

 

Samfylkingin fór illa út úr því stjórnarsamstarfi og hrapaði fylgi flokksins niður í 12,9% í næstu kosningum, 2013, og missti hann heila ellefu þingmenn. Ekki þarf að fjölyrða um annað hrun í kosningunum um daginn, en Samfylkingin hefur nú aðeins yfir þremur þingmönnum að ráða; þar af bara einum kjördæmakjörnum, Loga Má Einarssyni, sem tók við formennsku í flokknum í vikunni, en hann bauð sig fram í Norðausturkjördæmi. Hinir tveir þingmenn Samfylkingarinnar eru uppbótarmenn.

 

Það er ágæt vísbending um vanda Samfylkingarinnar nú að Alþýðuflokkurinn var aðeins einu sinni undir 10% fylgi í alþingiskosningum, fyrir utan tvö fyrstu skiptin. Það var 1974 þegar flokkurinn hlaut 9,1%. Þá var þingstyrkur flokksins líka minnstur á lýðveldistímanum, fimm menn.

 

Alþýðuflokkurinn náði tvívegis að rjúfa 20% múrinn; 1978, eins og fyrr er getið, og 1934, þegar hann hlaut 21,7% atkvæða.

 

Slíkt fylgi er fjarlægur draumur nú. 


Morgunblaðið sunnudagurinn 6. nóvember 2016.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31