Kómedíuleikhúsið gefur út Geisla Bíldudal 1946-1960
Kómedíuleikhúsið hefur gefið út verkið Geisli Bíldudal 1946 - 1960 úrval. Kómedíuleikhúsið er fyrsta og eina atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum, stofnað árið 1997 og er starfrækt af Elfari Loga Hannessyni og konu hans Marsibil Kristjánsdóttur myndlistarkonu. Leikhúsið hefur staðið fyrir fjölda uppsetninga á verkum og þá sér í lagi einleikjum, en einnig gefið út ýmis ritverk og hljóðbækur. Geisli er 20. verkið sem gefið er út á vegum leikhússins en hér er á ferðinni einstök útgáfa er inniheldur úrval úr blaðinu Geisla er gefið var út á Bíldudal um miðja síðustu öld. Geisli var í raun safnaðarblað ritstýrt af hinum mæta klerki Jóni Kr. Ísfeld. Það var hinsvegar ekki bara kristilegt efni í Geisla heldur og fréttir úr þorpinu. Klerkur hafði fjölbreytt og gott fréttanef því víst var þorpslífið fangað í hverju tölublaði með fréttum af veðri, atvinnumálum, gestakomum í þorpið, giftingum, mannamótum og öllu mögulegu. Geisli Bíldudal gefur sannlega einstaka mynd af þorpi á Vestfjörðum í einn og hálfan áratug. Hægt er að nálgast frekari upplýsingar um verkið og pantanir hjá Kómedíuleikhúsinu.