A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
04.04.2017 - 08:18 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

„Kom verulega á óvart“

• Dúettinn Between Mountains fór með sigur af hólmi í Músíktilraunum og hlaut einnig verðlaun fyrir söng

„Þetta var ótrúlega mikil reynsla og við áttum engan veginn von á því að vinna,“ segir Katla Vigdís Vernharðsdóttir, sem ásamt Ásrós Helgu Guðmundsdóttur skipar dúettinn Between Mountains sem fór með sigur af hólmi í Músíktilraunum laugardaginn síðastliðinn, 1. apríl. Katla er 14 ára og Ásrós 16 ára og eru þær enn í grunnskóla, Katla á Suðureyri og Ásrós á Þingeyri. „Það voru margar mjög flottar hljómsveitir í keppninni þannig að þetta kom verulega á óvart,“ segir Katla um keppnina, en 12 hljómsveitir og tónlistarmenn kepptu í úrslitum hennar.

–Voruð þið með hnút í maganum þegar þið fóruð upp á svið að taka við verðlaununum?

„Ég var alla vega í sjokki, þetta var svo fljótt að líða og allt í einu var maður bara að knúsa borgarstjórann og að taka við verðlaununum,“ segir Katla og hlær.

 

Báðar í píanónámi

–Voruð þið ekki alveg óvanar því að koma fram?

„Nei, ég myndi nú ekki segja það. Ásrós hefur verið að æfa söng í tvö ár og við höfum báðar verið að læra á píanó í Tónlistarskólanum á Ísafirði þannig að við erum mjög vanar að koma fram. En við höfum ekki sungið saman lengi. Við byrjuðum í rauninni að syngja saman í janúar til að undirbúa Samfés-keppnina,“ svarar Katla og á þar við Söngkeppni Samfés, Samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi. „Raddirnar smellpössuðu saman,“ segir Katla, enda hlutu þær Ásrós líka verðlaun Músíktilrauna fyrir besta sönginn.

Katla og Ásrós stofnuðu hljómsveitina fyrir rúmum mánuði, þegar þær ákváðu að taka þátt í Músíktilraunum, og spurð að því hvort þær hafi fengið aðstoð frá kennurum í Tónlistarskólanum á Ísafirði við undirbúninginn segir Katla að þær hafi fengið að æfa mikið í skólahúsinu og fengið marimbu skólans lánaða. Hún segist hafa þakkað Dagnýju Arnalds, píanókennaranum sínum, sérstaklega við verðlaunaafhendinguna. „Hún hefur sýnt ótrúlega mikinn stuðning, er alltaf tilbúin að heyra ný lög þótt það sé ekki beint það sem ég á að vera að gera í tímum,“ segir Katla kímin.

 

Kaka hjá ömmu

–Hvernig voru viðtökurnar þegar þið sneruð aftur vestur?

„Þær voru mjög góðar. Ég fór beint í heimsókn til ömmu minnar og þar beið mín kaka,“ segir Katla.

–Og hvað er svo fram undan hjá Between Mountains?

„Við erum enn að átta okkur á þessu og ætlum að einbeita okkur að því að búa til lagalista fyrir Aldrei fór ég suður, semja fleiri lög og svona,“ svarar Katla, en tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður verður haldin á Ísafirði 13.-16. apríl. Þær Ásrós hlutu einnig hljóðverstíma í verðlaun og segir Katla að þær muni mögulega ná því að taka upp eina EP-plötu.

Morgunblaðið 4. apríl 2017.

 

 

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31