A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
25.07.2015 - 06:36 | Vestfirska forlagið,Fréttablaðið

Klungur og sandar safaríkustu leiðirnar

Ómar Smári Kristinsson teiknari á Ísafirði. Ljósm.: Nina Ivanova.
Ómar Smári Kristinsson teiknari á Ísafirði. Ljósm.: Nina Ivanova.
« 1 af 3 »
Ný hjólabók Ómars Smára Kristinssonar teiknara fjallar í máli og myndum um tólf hringleiðir í Árnessýslu sem hverja um sig má hjóla á einum degi.

"Ég ætla að leggja landið undir mig, þessi bók er liður í því. Ég hugðist gera það í átta skrefum í upphafi en þau verða örugglega níu eða tíu. Sum landsvæði eru hreinlega þannig að það er ekki hægt að klofa svona stórt. Nú er ég kominn á Suðurlandið og það dugar ekkert minna en þrjár bækur um það," segir Ómar Smári Kristinsson, teiknari á Ísafirði. Hann sendi nýlega frá sér fjórðu bókina um hringleiðir sem hægt er að hjóla á einum degi, hverja og eina. Fyrsta bókin hans var um Vestfirði, svo hefur hann farið rangsælis um landið og þessi er um Árnessýslu.

 

Er ekki mikill munur að hjóla um Árnessýslu miðað við Vestfirði?

 

"Jú, það liggur í landslaginu. Á Vestfjörðum kemur yfirleitt að því að maður verður að fara yfir fjallgarð ef maður hjólar hring, með nokkrum undantekningum þar sem firðir hafa verið þveraðir. Þær urðu samt dálítið erfiðar hringleiðirnar í þessari flötu og þægilegu ferðamannasýslu, ekki vegna fjarða og þverhníptra fjalla eins og á Vestfjörðum held

ur þungra umferðaræða. Safaríkustu leiðirnar liggja því dálítið um klungur og sanda en þar er mikil náttúrufegurð. Kjarninn í bókinni er sá að margt er að sjá í Árnessýslu en fólk þarf að leggja dálítið á sig til þess."

 

Auk þeirra tólf hringleiða sem Smári lýsir glöggt í nýju bókinni bendir hann á aðrar léttari. En þar verður fólk að sætta sig við að hjóla á okkar mjóu þjóðvegum innan um bílana. "Í Árnessýslu eru rútur mjög mikið á ferðinni og líka hjól- og fellihýsi," tekur hann fram.

 

Í bókunum lætur Smári hverri leið fylgja tímaás þar sem áætlað er hvaða tíma ársins er hægt að fara þær án þess að skaða sjálfan sig eða landið. En ætlar hann að heyja sér efni í nýja bók á þessu sumri? "Já, ég ætla fljótlega á mínar gömlu heimaslóðir í Rangárvallasýslu og hyggst taka tvö ár í þá bók. Það hefur komið út ein á ári hingað til en nú verður vandað sérstaklega til verka! Ég hef líka mikið að gera í mínu fagi sem teiknari og við Nína erum að gera upp gamalt hús hér á Ísafirði en ég vona að mér endist aldur til að taka landið allt fyrir." Já, þú ert nú vonandi ekkert á grafarbakkanum. "Nei, það lengist líka örugglega leiðin að þeim grafar bakka þegar maður stundar svona holla og góða hreyfingu sem hjólreiðarnar eru!"

 

Vestfirska forlagið á Þingeyri gefur bækurnar út.

 

Fréttablaðið.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31