Kaupfélagsmenn á ferð að taka myndir
Þeir félagar Reynir Ingibjartsson og Sigurður Kristjánsson, báðir gamalkunnir kaupfélagsmenn, voru á ferðinni hér vestra nýlega. Eru þeir að taka ljósmyndir og safna efni um allar byggingar sem tilheyrðu kaupfélögum landsins, að undanskildum íbúðarhúsum. Hugmynd þeirra er að gefa út bækur með þessu efni. Verður þetta greinilega mikið verk hjá þeim, allt landið og miðin ef svo má segja. En hér er alls ekki um að ræða sögu viðkomandi kaupfélaga sem slíka.
Enn eru uppistandandi 14 hús sem tilheyrðu rekstri K. D. -Kaupfélagi Dýrfirðinga- á sínum tíma. Við þessir gömlu kaupfélagsjaxlar megum varla hugsa um Kaupfélagið okkar ógrátandi. Árið 1979 kom út saga K. D. fyrstu 60 árin sem Valdimar Gislason á Mýrum tók saman. Og einhverntíma kemur að því að saga félagsins frá þeim tíma til loka þess verði færð í letur.
Á meðfylgjandi mynd sitja þeir félagar á rökstólum með Eiríki Eiríkssyni hótelhaldara á Hótel Sandafelli í húsinu sem pabbi hans byggði fyrir K. D. af mikilli framsýni. Ekki er nú meðlætið skorið við nögl!
Þess skal getið að amma Reynis var hin stórkostlega veitingakona Kristín Dahlstedt frá Dröngum í Dýrafirði. Vestfirska forlagið endurprentaði sögu hennar fyrir örfáum árum.
Hallgrímur Sveinsson.