Kardemommubærinn á Þingeyri
Leikdeild Höfrungs á Þingeyri hefur verið sérlega dugleg síð-ustu ár og sett upp vandaðar og vinsælar leiksýningar fyrir alla fjölskylduna.
Fyrst var það Lína langsokkur, svo kom Galdrakarlinn í Oz og verkefni ársins er hvorki meira né minna en Kardemommubærinn. Það er óhætt að segja að þetta sígilda leikrit Thorbjörns Egner um fólkið í Kardemommubæ hafi verið meðal vinsælustu barnaleikrita allra tíma hér á landi. Nú hafa íbúar þessa vinsæla bæjar flutt lögheimili sitt í Dýrafjörð nánar tiltekið í Félagsheimilið á Þingeyri. Þar spranga nú um torg persónur á borð við Bastían bæjarfógeta sem gætir þess að allt sé í röð og reglu í bænum. Þar hittir þú líka fyrir Sörensen rakara, Tomma og Kamillu litlu og ekki má gleyma Soffíu frænku. Rétt við bæjarmörkin búa þrír ræningjar sem heita Kasper, Jesper og Jónatan.
Kardemommubærinn verður frumsýndur laugardaginn 19. mars kl.14.00 í Félagsheimilinu Þingeyri. Önnur sýning verður strax daginn eftir á sama tíma. Á páskum verða þrjár sýningar tvær á föstudaginn langa 25. mars kl.13 og 17. Loks verður leikurinn sýndur á laugardag 26. mars kl.13.
Miðasala á allar sýningar er þegar hafin í síma: 864 2974.
Sérlega viðamikil sýning um 20 leikarar og annar eins fjöldi kemur við sögu á bakvið tjöldin við að farða leikarana, lýsa leiksviðið, selja miða, smíða leikmynd og svo ótal margt annað. Það má sannarlega segja að allt þorpið taki þátt í ævintýrinu.