A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
10.03.2016 - 07:34 | Vestfirska forlagið,Dagskráin - Fréttablað á Suðurlandi

Kaplaskjól og klakaklárar

Sigurður Sigurðarson, fyrrverandi dýralæknir.
Sigurður Sigurðarson, fyrrverandi dýralæknir.

Sigurður Sigurðarson, fyrrverandi dýralæknir, skrifar hér grein um vanhirtan útigangsfénað í Árborg.

Greinin er svohljóðandi:

Hristið af ykkur slyðruorðið útigangshesta-eigendur í Árborg og þið aðrir sem eigið vanhirtan útigangsfénað um allt land.

Umhleypingasamur Þorri er liðinn, snjóasamur með frostaköflum og hrakviðrum. Góa hefur verið lítið betri. Ég á heima á Selfossi og þekki best nú um stundir til næsta nágrennis míns og fjalla um það hér í fyrstu. Ég hef fylgst með svæðinu árum saman og sé litlar úrbætur því miður. Ég undrast, hversu fáir virðast láta sig varða meðferðina á búfénu sem er á útigangi í sveitarfélaginu Árborg og víðar um land sums staðar í vanhirðu án þess að fá nægilegt fóður og vatn. Sums staðar er alls ekkert gefið þótt beit sé takmörkuð vegna snjóa frosta og ofbeitar og vötn frosin. Sums staðar er algjört skjólleysi. Annars staðar eru sýndarskjól úti í haga, ein eða fáar rafmagnsrúllur sem ekki uppfylla kröfur laga og reglna. Hér er einkum verið að tala um hross, en jafnvel eru nautgripir hafðir úti heilu veturna. Þeir eru ennþá verr búnir frá náttúrunnar hendi til að standa af sér illviðri og umhleypingasama tíð en hrossin. Holdanautgripir þola hrakviðri betur en þeir þola ekki, hvað sem er. Skepnurnar leggja af og innyflaormar magnast í vanþrifaskepnum og gera líðanina enn verri. Ormahreinsa þarf vanþrifaskepnur.

Herðið ykkur upp Árborgarmenn, þið sem hafið grun um eða verðið vör við illa meðferð á dýrum. Ég tala til ykkar granna minna, þótt aðrir megi taka þetta til sín eftir atvikum. SKRIFIÐ Matvælastofnun og sendið afrit til lögreglu. Sendið sveitarstjórninni einnig afrit. Það þýðir ekkert að tala við eldhúsborðið eða hringja. Skrifið og biðjið um nafnleynd. Því er lofað að ekki verði upplýst um þá sem senda athugasemd og biðja um athugun. Því verður að treysta. Ef þið treystið ykkur ekki til þessa skal ég reyna að koma athugasemdum ykkar á framfæri. Tölvupóstur er: sigsig@hi.is og sími: 892 1644.

Það er óhæfa og þjóðarskömm, að hrossahópar standi úti á löndum í grennd við Selfoss, höfuðstað Suðurlands við ófullkomin skjól, jafnvel algjört skjólleysi á sunnlenskri flatneskju. Sum af þessum löndum eru í eigu sveitarfélagsins, sem leigir mönnum afnot af þessum löndum ár eftir ár, án þess að ganga eftir því að hrossaeigendurnir uppfylli skilyrðin sem þeim hafa verið sett, en það er að hafa náttúrleg skjól eða manngerð skýli, nægt fóður og aðgang að drykkjarvatni. Þessa vanrækslu ætti ekki að líða lengur. Samt eru komin ný dýraverndarlög og fögur fyrirheit hafa verið gefin um breytt og bætt eftirlit og betri eftirfylgni.

Haft verður samband við sveitarstjórn Árborgar og skorað á hana að líta eftir líðan skepna á umráðasvæði sínu og segja  vanrækslumönnum upp samningum um afnot landanna, en treysta ekki á Matvælastofnun, sem er máttlaus og vantar bein í nefið gagnvart dreissugum dýraeigendum, sem þykjast vita best, hvað skepnur þeirra þola og stofnunin fylgir ekki eftir óskum um úrbætur. Á meðan kveljast skepnur sums staðar af hungri, þorsta og skjólleysi.

Það næsta er að fá sjónvarp til að taka myndir af vanhirtum skepnum og þarnæst er birting á nöfnum dýraníðinga. Ég er kominn með dágóðan lista og mun ekki hika við að birta hann. Takið ykkur á þið sem ekki hafið allt í lagi og þið sem hafið allt í lagi látið ekki eins og þið sjáið ekki óhæfuna þar sem hún er. Þið hafið skyldur gagnvart málleysingjum hvar sem er.

Sigurður Sigurðarson dýralæknir

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31