Kafli úr bókinni -Vestfirðingar til sjós og lands-
Mýrahreppur
Davíð H. Kristjánsson:
Halldór Kiljan Laxness heimsækir Dýrfirðinga:
-Gott betur, gott betur-
Ritstörf og athafnir Nóbelsskáldsins, Halldórs Kiljans Laxness, voru mikið til umræðu á síðastliðnu ári, dánarári hans. Fyrir mér rifjast upp sagnir sem ég heyrði þegar ég var barn og voru af heimsókn Halldórs Kiljan Laxness á bernskuheimili mitt einhverntíma á árunum rétt eftir 1930, en þá var ég í frumbernsku og man því ekki sjálfur atburði þá sem hér verður sagt frá, en faðir minn, Kristján Davíðsson, bóndi í Neðri-Hjarðardal, hafði á orði og Valgeir Jónsson, bóndi á Gemlufalli, staðfesti síðar og jók nokkru við.
Halldór Laxness kom vestur á Ísafjörð þegar hann var að undirbúa ritun skáldsögu sinnar um Ólaf Kárason Ljósvíking, til þess að kynna sér háttu og málfar Vestfirðinga, sem var vísast á þeim tíma nokkuð frábrugðið því sem Halldór þekkti best af Suðvesturlandi. Vilmundur Jónsson, þá læknir á Ísafirði, greiddi götu hans vestur um firði og hafði samband við heimili þar sem hann dvaldi.
Á vegum Vilmundar kom svo Halldór í Neðri-Hjarðardal og gisti í eina nótt eða ef til vill fleiri. Halldór var ræðinn og forvitinn um alla hluti og fór hann í fylgd föður míns og Jóhannesar, bróður hans, um öll útihús og kofa á jörðinni. Í fjárhúshlöðunni hafði Halldór orð á því að þar væru veggir vel hlaðnir úr torfi og grjóti. Sagði faðir minn honum að þessa veggi hefði Jón í loftinu, sem kallaður var, hlaðið fyrir aldamót og þeir hefðu ekki haggast og væru búnir að standa í 40 ár eða "gott betur."
Jón í loftinu hafði fengið þetta viðurnefni af því hve duglegur hann var og sérstakur hleðslumaður. Varla var byggður kofi í Dýrafirði, að Jón í loftinu væri ekki fenginn þar að til þess að verkið kæmist áfram. Veggir þeir sem Jón hlóð ruku annað hvort strax, og var hann þá fljótur að hlaða þá upp aftur, eða þeir stóðu vel og lengi. Jón í loftinu var faðir Bernharðar í Hrauni, afi Guðmundar Bernharðssonar í Ástúni og þeirra mörgu systkina.
Ekki þótti Halldóri Laxness heimilisfólkið í Neðri-Hjarðardal nógu harðmælt á fornan vestfirskan framburð og ræddi hann um hvort í sveitinni væri ekki einhver af eldri kynslóðinni sem hefði hann, og ef svo væri, hvort ekki væri möguleiki á að greiða sér veg þangað. Talaðist svo til, að faðir minn lofaði að fara með honum til gamallar, greindrar konu, sem hefði þennan sérstaka framburð og skyldu þeir ræða við hana. Þesi gamla kona var María Sigmundsdóttir á Bessastöðum.
Þetta sama kvöld hitti faðir minn Valgeir Jónsson, bónda á Gemlufalli og sagði honum frá fyrirhugaðri ferð þeirra Halldórs að Bessastöðum. Valgeir átti svo leið þangað á undan þeim félögum og sagði Maríu frá því að hún ætti von á gestum daginn eftir. Þeir mundu koma, Kristján á Bakka og Halldór Kiljan og ætlaði Halldór að læra vestfirskan framburð af henni.
Þeir komu svo og kvöddu dyra á Bessastöðum, faðir minn og Halldór. María kom til dyra og tekur í hendur þeirra steinþegjandi og bendir þeim inn í bæinn. Þegar þeir eru komnir til stofu, hverfur María. Guðmundur Jón, bóndi hennar, þá orðinn háaldraður og ellihrumur og hafði vísast aldrei hellt í kaffibolla fyrir sjálfan sig, gekk þeim um beina og bar þeim kaffi og dýrindis bakkelsi, því enginn bakaði betri kökur í sveitinni en María.
Þegar þeir höfðu gert sér gott af veitingunum og gert nokkrar misheppnaðar tilraunir til þess að ræða við Guðmund Jón, stóðu þeir upp, þökkuðu fyrir sig og kvöddu án þess að hafa heyrt Maríu segja eitt einasta orð.
Þegar að því kom að Halldór hélt ferð sinni áfram vestur yfir Dýrafjörð, fluttu þeir bændur á Gemlufalli, Jón Ólafsson og Valgeir Jónsson, hann yfir fjörðinn. Valgeir hafði orð á því, að í bátnum á leiðinni hafi Halldór tautað við sjálfan sig:
"Gott betur, gott betur".
(Mannlíf og saga 6. hefti)