26.05.2009 - 23:36 | bb.is
Kaffihús senn opnað í Sigmundarbúð á Þingeyri
Stefnt er að því að kaffihús verði opnað í Sigmundarbúð á Þingeyri þann 13. júní. „Við erum að ganga frá ýmsum hlutum og stefnum að því að geta opnað kaffihúsið á settum tíma. Seinna ætlum við líka að gera upp kjallarann og koma þar upp baraðstöðu. Það verður samt ekki á þessu ári", segir Wouter Van Hoeymissen sem unnið hefur að endurbótunum á fjórða ár. „Það tók lengri tíma en ég bjóst við að gera húsið upp en við erum að vinna að því með húsafriðunarnefnd og allt er í upprunalegri mynd. Þetta hefur verið vandaverk sem tekið hefur sinn tíma", segir Wouter. Hann segist vilja koma upp eins konar menningarhúsi þar sem verði kaffisala og ýmis önnur starfsemi, svo sem tónleikar, ljóðalestur og matsala. „Við erum ekki búin að skipuleggja neitt fyrir sumarið en ætlunin er að hafa þarna alls konar menningarviðburði. Fyrsta myndlistarsýningin fer fram á kaffihúsinu í tengslum við Dýrafjarðardaga í júní.
Wouter segir viðtökur bæjarbúa hafa verið góðar. „Þeir virðast ánægðir að verið sé að gera húsið upp og hlakka einnig til að hafa stað til að koma saman og eiga góðar stundir."
Wouter segist vera bjartsýnn á sumarið. „Það lítur vel út og útlit er fyrir að Íslendingar muni ferðast um landið sitt. Ég vona því að sem flestir kíki við á kaffihúsið til okkar."
Húsið er áberandi í bæjarmynd Þingeyrar enda stórt og glæsilegt þó það sé illa farið. Sigmundur Jónsson kaupmaður reisti þetta glæsilega hús 1916 og rak þar lengi fjölbreytta verslun. Á síðari árum hefur húsið verið í niðurníðslu, enda mannlaust lengi. Þess má geta að húsið er einnig þekkt sem Simbahöll.
thelma@bb.is