Kæra Skipulagsstofnun vegna sjókvíeldis í Dýrafirði
„Það hefur verið áhyggjuefni að íslenskir laxastofnar búa ekki lengur við þá mikilvægu landfræðilegu einangrun sem mótað hefur erfðir hans í gegn um aldirnar. Innflutningur á erfðaefni erlendra laxa er ógnun við innlenda stofna. Allir samningar sem gerðir voru þegar innflutningurinn var leyfður, snemma á níunda áratugnum, hafa reynst haldlausir. Nú er það staðreynd að þessi lax hefur verið tekinn til eldis í kvíum við strendur landsins og það er líka staðreynd að hann hefur sloppið úr kvíum og hrygnt í íslenskum ám. Í tvígang hafa stórtæk áform um sjókvíaeldi runnið út í sandinn og mikið fé tapast á ævintýrinu. Nú síðast gerðist slíkt í Mjóafirði og við Berufjörð", segir í bókun aðalfundarins.
Í bókun fundar segir að fundargestir hefðu ætlað að sá dýri lærdómur sem af því var dreginn yrði víti til varnaðar og frekari tilraunir á sviði sjókvíaeldis á laxi væru úr sögunni. En svo virðist ekki vera. Þar segir jafnframt: „Við hljótum að velta upp þeirri spurningu hvort ekki sé tímabært að endurskoða reglugerð um friðunarsvæði fyrir eldi frjórra laxa í sjó við strendur landsins, þannig að skylt verði að eldisfiskur verði af innlendum uppruna og eigi skyldleika við stofna þess landsvæðis þar sem eldið fer fram. Nú hefur genamengi laxa verið skráð í íslenskum ám og niðurstöður sýna skyldleika innan landshluta og landssvæða. Það er mikilvægt að rugla ekki þessu viðkvæma samhengi sem náttúran hefur mótað um árþúsundir. Þarna á að taka ákvörðun um að láta náttúruna njóta vafans.
Saga laxeldisins í sjó gefur ekki tilefni til þess að ætla að það verði nokkurn tíma um atvinnuveg á Íslandi að ræða. Þessi ævintýri eru hættuleg. Þau ógna dýrmætum náttúruhagsmunum og einnig verðmætri sjálfbærri atvinnugrein sem felst í nýtingu laxveiðihlunninda í íslenskum ám."