Jón í yfir fimmtíu litum • Afsteypurnar af Jóni Sigurðssyni áfram vinsælar
Hönnunarvaran Jón í lit hefur slegið í gegn á íslenskum heimilum á síðustu árum. Nýjasti liturinn, fyrir árið 2017, er fölgrænn og hefur plattinn nú verið gefinn út í yfir fimmtíu litum frá því að hugmyndin um að lita afsteypur af Jóni Sigurðssyni spratt upp hjá vöruhönnuðinum Almari Alfreðssyni.
„Ég keypti koparlágmynd af Jóni Sigurðssyni í Góða hirðinum sumarið 2010. Um veturinn var ég í afsteypukúrsi í Listaháskólanum og datt í hug að taka afsteypu af þessari mynd og gefa fjölskyldumeðlimum í jólagjöf. Þetta sló rækilega í gegn og spurðist fljótt út,“ segir Almar. „Árið 2011 ákváðum við hjónin svo að koma þessu út á markaðinn. Þetta ár voru 200 ár liðin frá fæðingu Jóns og ákváðum við að gera tuttugu lágmyndir í lit og komum þessu í nokkrar verslanir um landið. Þá byrjaði boltinn að rúlla og hefur ekki hætt síðan og er Jón nú seldur í 20 verslunum um land allt.“
Litirnir lýsa heimilunum
Fyrstu tuttugu litirnir spönnuðu allt litrófið og síðan þá hefur Almar bætt við ýmsum litbrigðum. Hann segir að stór þáttur í vinsældum hönnunarinnar sé að fólk getur persónugert hönnunina með því að velja og raða litunum á þann veg sem hentar heimilinu best.
„Þegar við veljum nýja liti skoðum við vel hvað er að gerast úti í heimi og hvernig þeir litir passa við litapallettuna okkar. Í dag eru 36 litir í boði og því nóg um að velja þegar finna á rétta liti inn á heimilið. Við erum alltaf að sjá nýjar uppraðanir og litasamsetningar hjá fólki, og lýsir þetta heimilunum og íbúunum oft mjög vel.“
Almar útskrifaðist sem vöruhönnuður úr Listaháskólanum árið 2011 og hafa plattarnir tekið mikið af tíma hans síðan þá. „Við tókum þá ákvörðun í upphafi að við myndum gera þetta sjálf frá grunni en ekki panta þetta að utan. Ferlið er um 5 til 6 dagar frá dufti til fullunnins eintaks í umbúðum. Við sjáum alls ekki eftir því vegna þess að hvert eintak er einstakt. “
Fyrir þremur árum ákváðu Almar og eiginkona hans, Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, að opna minnstu og einu hönnunarsjoppu landsins í Listagilinu á Akureyri, sem kallast Sjoppan vöruhús, og selja þar hönnunarvörurnar út um lúgu.
Erfiðara að selja útlendingum
Lágmyndirnar af Jóni Sigurðssyni urðu fljótlega vinsæl innflutningsgjöf. Almar segir að hönnunin hafi komið á markaðinn á hárréttum tíma, eftir hrunið hafi fólk horft inn á við og leitað í þjóðleg einkenni. Hann telur að lágmyndin hafi fyrst verið steypt fyrir Lýðveldishátíðina árið 1944 þar sem ýmis félög hafi selt hana og eftir hátíðina hafi mátt finna lágmyndirnar á mörgum heimilum. Vegna vísunar þeirra í sögu Íslands segir Almar að erfiðara sé að markaðssetja þær gagnvart útlendingum. „Við ákváðum að einblína á íslenskan markað því útlendingar þurfa mun meiri útskýringu á mikilvægi Jóns forseta en hægt er að gera í búðarápi. En þeim sem þekkja söguna og Jón finnst þetta skemmtileg hönnun.“
Morgunblaðið 2. maí 2017.