09.12.2019 - 15:18 |
Jólatréð tendrað á Þingeyri
Tendrun jólatrésins fór fram hér á Þingeyri í gær sunnudaginn 8. desember. Fulltrúi Ísafjarðarbæjar, Arna Lára Jónsdóttir, setti athöfnina og venju samkvæmt sungu leikskólabörnin frá leikskólanum Laufási af krafti eftir að hafa talið niður í ljósatendrun trésins. Tréð skartaði sínu fegursta í froststillu gærdagsins og gestir og gangandi yljuðu sér við heitt súkkulaði, kleinur og piparkökur í boði Foreldrafélags Laufáss. Jólasveinarnir létu sig að sjálfsögðu ekki vanta eins og þeirra er von og vísa þegar skemmtanahald í desember er annars vegar og skemmtu krökkunum með söng, gleði og svolitlu gotteríi.