30.06.2010 - 21:39 | bb.is
Myndin er tekin inn í ungbarnakastalann þar sem búið var að reyna að kveikja í m.a. hluta af nýgróðursettum matjurtum.
Ítrekað hafa verið unnin skemmdarverk á lóð leikskólans Laufáss á Þingeyri. „Það eru einstaklingar sem virðast ekki getað notið lóðarinnar eins og hún kemur fyrir, heldur þurfa að rífa upp grasþökur, brjóta flöskur og skemma lása, svo fátt eitt sé nefnt. Nú er svo komið að ítrekað, núna í júnímánuði 2010, hefur einhver/einhverjir reynt að kveikja eld inni í leiktækjunum. Matjurtagarðurinn sem börnin eru að rækta hefur verið skemmdur, þessum fáu matjurtum sem settar voru niður hefur verið dreift um alla lóð og tré rifin upp með rótum. Sígarettustubbar, tyggjóklessur, rusl og drasl, finnast hér aftur og aftur svo ekki er alltaf um að ræða ung börn í þessu sambandi," segir í opnu bréfi sem Elsa María Thompson leikskólastjóri hefur ritað Dýrfirðingum og birt hefur verið á Þingeyrarvefnum.
„Svona umgengni leiðir náttúrulega til þess að prýðin endist ekki lengi, sjarminn fer af og hlutir drabbast niður, tala nú ekki um hættuna sem fylgir því að fikta með eld og ekki er nú skemmdarfýsn álitlegur kostur að bera. Það þarf að læra að bera virðingu fyrir umhverfinu, hún kemur ekki af sjálfu sér. Þetta eru hreinlega skemmdarverk og mjög alvarlegt mál, það er markvisst verið að eyðileggja, skemma og jafnvel að kveikja í. Það þarf að taka á þessu," segir Elsa María.
Bréfið hennar Elsu má lesa í heild sinni
hér.