A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
03.05.2016 - 20:14 | Vestfirska forlagið,Herdubreid.is

Íslenska forystuféð er einstakt í sinni röð

Forystusauðurinn Glænefur á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi, tveggja vetra gamall. Hann ber sauðabjöllu að gömlum sið.
Forystusauðurinn Glænefur á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi, tveggja vetra gamall. Hann ber sauðabjöllu að gömlum sið.
« 1 af 4 »

Á vefritinu herdubreid.is lesum við meðf. stórskemmtilegu og athyglisverðu grein um íslenska forystuféð. Ritstjóri herdubreid.is er Karl Th. Birgisson.

 

Nýjar rannsóknir staðfesta það sem bændur hafa lengi talið sig vita, að íslenskt forystufé er sérstakur fjárstofn og hefur eiginleika sem hvergi finnast í kindum annars staðar.

Með hugtakinu forystufé er átt við þær kindur, sem sjálfkrafa og af eðlisávísun taka forystu fyrir kindahópum og leiða þá öruggustu og bestu leiðina heim eða frá aðsteðjandi hættu. Slíkt fé hefur verið hér frá landnámi og hefur víða verið markvisst ræktað til að sinna þessu hlutverki. Í Jónsbók, sem var lögtekin seint á þrettándu öld, voru forystusauðir taldir metfé og var svo löngum síðan.

Af forystufé, einstökum hæfileikum þess, afrekum og greind, er til fjöldi frásagna. Frægastur forystusauða er vafalítið Eitill í Aðventu Gunnars Gunnarssonar, sem fylgir Fjalla-Bensa og hundinum Leó í eftirleitum á öræfum norðaustanlands. Slíkar frásagnir hafa vísindalegar rannsóknir nú staðfest.

Í nýjasta tölublaði Náttúrufræðingsins, tímarits Hins íslenska náttúrufræðifélags, birtist ítarleg grein með niðurstöðum rannsókna á íslensku forystufé og er það eindregin niðurstaða höfundanna, að það skuli telja sérstakan stofn, að vísu skyldan öðrum íslenskum kindum en mjög afgerandi frábrugðinn þeim samt sem áður.

Höfundar eru Jón Viðar Jónmundsson, Lárus G. Birgisson, Sigríður Jóhannesdóttir, Emma Eyþórsdóttir, Þorvaldur Kristjánsson og Ólafur R. Dýrmundsson.

Í greininni er lýst rannsóknum á fénu, uppruna þess, sögu, útbreiðslu, varðveislu, ræktun, aldursdreifingu, útliti, hornafari, forystueiginleikum og fleiru. Höfundar draga fram þennan kjarna máls síns:

„Forystufé er yfirleitt fremur háreist og fylgist þannig vökulum augum með fjárhópnum sem það er í. Það er kvikt í hreyfingum og vekur fljótt athygli í fjárhópi. Augun eru stór, augnaráðið rannsakandi, og augun oft dekkri en í öðru fé. Hausinn er yfirleitt grannur og raunar skrokkurinn allur. Bolurinn er yfirleitt þunnvaxinn og hávaxinn.

Vöðvar eru mun þynnri og fita á skrokk miklu minni en hjá öðru fé og einnig er forystuféð mjög kviðlétt. Féð er háfætt með netta og rétta fætur og vel lagaðar klaufir. Það hefur annað og harðara göngulag en annað fé, og fer á nokkurs konar brokki, en einnig kemur fyrir að það tekur töltspor. Mikill munur á bollögun forystufjár og annars fjár er vel staðfestur með mælingum Lárusar G. Birgissonar. Algengt er að fullvaxnar forystuær séu 15-20 kg léttari á fæti en meðalær í hjörðinni. Breytileiki í stærð er þó verulegur hjá forystufé. Ullin er yfirleitt minni að vöxtum en hjá öðru fé, einkum er þel lítið en fínt, og reyfið því frekar slétt en tog fremur gróft. […]

Munur forystufjár og annars fjár í útlits- og byggingareiginleikum er þannig umtalsverður en helsta sérstaða forystufjárins er þó talin liggja í hegðunareiginleikunum. Forystueiginleikinn lýsir sér þannig að forystukindin fer fyrst í sínum hópi, velur bestu leiðir og sýnir hörku og dugnað við að ryðja sér braut í erfiðum veðrum. Einnig er forystuféð talið finna á sér óvænt veðrabrigði.“

Í greininni er lýst tilraunum sem staðfestu með óyggjandi hætti eiginleika fjárins til að fara fyrir hópnum og skila honum á réttan stað. Þessir forystuhæfileikar eru óþekktir í fjárstofnum annars staðar í veröldinni.

Um hæfileikann til að fnna á sér veðrabrigði er hins vegar ekki fjallað – enda er líklega erfitt að sannreyna slíkt með vísindalegum hætti – en ótal lýsingar eru til á stórmerkilegri hegðun forystufjár þegar óveður er í vændum.

Forystusauðurinn Eitill í Aðventu var skáldlegt afkvæmi Gunnars Gunnarssonar, en hann átti sér margar fyrirmyndir. Á næstu dögum birtir Herðubreið sögur af slíku afburðafé.


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31