A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
22.09.2016 - 09:05 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Íslandssaga á Suðureyri: - Fékk 3.300 gesti í fisk­vinnsl­una í sum­ar

Óðinn Gestsson seg­ir ekki þurfa sér­stök leyfi til að hleypa gest­um inn í fisk­vinnsl­una. Fyllsta ör­ygg­is og hrein­læt­is er gætt. Ljós­mynd/​Viggó Jóns­son – SFS
Óðinn Gestsson seg­ir ekki þurfa sér­stök leyfi til að hleypa gest­um inn í fisk­vinnsl­una. Fyllsta ör­ygg­is og hrein­læt­is er gætt. Ljós­mynd/​Viggó Jóns­son – SFS

Hjá Fisk­vinnsl­unni Íslands­sögu hf. á Suður­eyri geng­ur rekst­ur­inn ekki bara út á að veiða og snyrta fisk. Ferðaþjón­usta verður æ stærri hluti af starf­sem­inni en í sum­ar heim­sóttu um 3.300 ferðamenn fisk­vinnsl­una.

Hef­ur SFS til­nefnt Íslands­sögu til verðlauna sem veitt verða á Sjáv­ar­út­vegs­sýn­ing­unni 2016 í næstu viku. Í um­sögn SFS seg­ir að Íslands­saga hafi stuðlað að vexti og viðgangi annarra fyr­ir­tækja í nærum­hverfi sínu, meðal ann­ars með öfl­ugu sam­starfi við ferðaþjón­ustu­fyr­ir­tækið Fis­herm­an.

„Íslands­saga hef­ur í sam­starfi við önn­ur fyr­ir­tæki á Suður­eyri unnið öt­ul­lega að því að skapa fjöl­breytt­ara at­vinnu­líf á Vest­fjörðum og um leið auka verðmæti sjáv­ar­fangs. Þar með hafa skap­ast aukn­ir mögu­leik­ar fyr­ir fjöl­skyld­ur að starfa og vinna ólík störf inn­an bæj­ar­fé­lags­ins,“ stend­ur í um­sögn­inni.

 

70 á launaskrá

Óðinn Gestsson er framkvæmdastjóri Íslandssögu en fyrirtækið varð til árið 1999 þegar rekstri Básafells á Ísafirði var skipt upp. „Við vorum þrír félagarnir sem tókum Suðureyrarhluta fyrirtækisins,“ segir Óðinn og vísar þar til Guðna Einarssonar sem núna er framkvæmdastjóri hausaþurrkunarinnar Klofnings ehf. á Suðureyri, og bróður hans, Elvars Einarssonar, fisksala í Bandaríkjunum. „Ég starfaði sjálfur hjá Básafelli á þessum tíma og höfðum við varla um nokkuð að velja því ef við hefðum ekki tekið tilboðinu hefði rekstrinum væntanlega verið lokað að öðrum kosti. Við tókum þetta yfir: eitt stykki frystihús, einn lítinn bát og 94 tonn af kvóta.“

Í dag gerir Íslandssaga út einn smábát, hefur kvóta upp á um 600 þorskígildistonn og 70 manns á launaskrá, þar af 50 í vinnslu og 20 við veiðar. „Í gegnum samninga við aðra höfum við aðgang að rúmlega þúsund ígildistonnum til viðbótar,“ útskýrir Óðinn en fiskvinnslan verkar á bilinu 3.500 til 5.500 tonn árlega.

 

Óflinkir flakarar í sjóstangaveiði

En hvernig komu ferðamennirnir inn í dæmið? Óðinn segir mega rekja upphafið til ársins 2006 eða þar um bil, þegar byrjað var að bjóða upp á sjóstangaveiðiferðir á svæðinu. „Ef einhver reynir að hleypa hér verkefni af stað þá kappkostum við að veita einhvern stuðning, ef ekki í formi peninga þá móralskt. Í þessu tilviki urðum við þess varir að þýsku stangveiðimennirnir voru að flaka fiskinn um borð og gerðu það mjög illa. Við buðum þeim því í heimsókn og komum með lausn fyrir þá þar sem við pökkuðum aflanum í tveggja kílógramma öskjur og frystum. Þannig kom fyrsta tengingin við túrismann.“

Smám saman spurðist þetta út og bráðum að stakir ferðamenn og hópar fóru að banka upp á hjá Íslandssögu, forvitnir um starfsemina innandyra. „Fyrst um sinn hafa þetta kannski verið 100 til 500 manns á ári sem komu til okkar og borguðu fyrir 10 evrur eða 10 dollara. Í hittifyrra ákváðum við að gera meira úr þessu og fórum að auglýsa ferðir í fiskvinnsluna með markvissum hætti, og þá aðallega í tengslum við komur skemmtiferðaskipanna sem stoppa á Ísafirði á leið sinni yfir hafið.“

 

500 kr. á hvern gest

Eins og fyrr var getið vinnur Íslandssaga með ferðaþjónustufyrirtækinu Fisherman, og er það Fisherman sem heldur utan um heimsóknir ferðamannanna í vinnsluna. Frá árinu 2001 hefur Elías Guðmundsson byggt starfsemi Fisherman upp á Suðureyri og reksturinn vaxið úr því að vera lítið gistihús, upp í að ná einnig yfir kaffihús og veitingastað og skipuleggja matarferðir um svæðið. Í ferðunum eru ferðamönnum meðal annars sýndir fiskhjallar og lífið niðri á bryggju og við flökunarborðið hjá Íslandssögu, auk þess sem náttúruundur á svæðinu eru heimsótt.

Eftir að markaðssetning á fiskvinnsluferðunum hófst fyrir alvöru segir Óðinn að hafi orðið sannkölluð sprenging í fjölda gesta. „Við ákváðum að hafa ferðirnar á auglýsingaprís fyrsta árið og rukka 500 kr. á haus fyrir hvern gest. Á móti fjárfestum við í að koma upp móttökuaðstöðu og kaupa sloppa og hárnet fyrir fólkið. Gestirnir fylgja síðan línu sem merkt hefur verið í gegnum húsið. Leiðbeiningarnar eru skýrar: það má horfa en ekki snerta.“

Óðinn segir þetta breytt snið frá fyrstu ferðunum, þegar leiðsögumaður fylgdi hópum gesta um húsið og fór ítaralega í gegnum alla starfsemina. „Það reyndist verulega tímafrekt og ollu hóparnir meira ónæði. Hentar líka best fyrir allan þennan fjölda að láta fólk einfaldlega labba eftir línu. Áður en haldið er af stað inn í vinnslusalinn höldum við stutta kynningu og förum vandlega yfir reglurnar.“

 

Ekkert sett á svið

Eins og aðrar fiskvinnslur leggur Íslandssaga ofuráherslu á gæði og öryggi vörunnar og gætu sumir haldið að væri varasamt að hleypa gestum inn í vinnslurýmið. Óðinn segir að komi ekki að sök þó að ferðamennirnir fái að skoða sig um. „Ekki þarf nein sérstök leyfi fyrir þessu. Þá höfum við látið alla okkar stærstu kaupendur vita og enginn þeirra gert neinar athugasemdir.“

Það hvað ferðamennirnir fá að sjá fer allt eftir því á hvaða tíma dags þá bera að garði. „Hérna sjá þeir fiskvinnslulífið eins og það er. Ef það er sunnudagur þá er ekkert um að vera og slökkt á vélunum, en gestir sem ber að garði milli kl. 8 og 4 frá mánudegi til föstudags sjá starfsemina eins og hún er þegar mikið er um að vera.“

Er ekki flókið dæmi að reikna út að Íslandssaga hafði um 1,5 milljónir króna í aukatekjur af ferðamönnunum í sumar. Þá mætti reikna með að tekjurnar muni aukast með hækkuðum aðgangseyri og fleiri gestum. Óðinn segir þó aðalmarkmiðið ekki að bæta meiri tekjum í reksturinn, heldur mun frekar að efla þorpið og samfélagið. „Það er miklu meira virði fyrir okkur ef það bætir lífið í þorpinu að laða fleiri ferðamenn hingað. Það getur líka verið gefandi að taka á móti þessum erlendu gestum og sýna þeim hvað við fáumst við. Viðbrögð þessa ágæta fólks sem sækir okkur heim eru oft mjög skemmtileg og þess eru dæmi að starfsmönnum hafi borist gjafir frá útlöndum.“

Morgunblaðið fimmtudagurinn 22. september 2016.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31