A A A
  • 1982 - Kristján Fannar Ragnarsson
14.07.2016 - 07:44 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið

Ísafjarðarbær 150 ára - Öflugur þéttbýlisstaður og vel skipulagður

Frá Ísafirði. Ljósm.: BIB
Frá Ísafirði. Ljósm.: BIB
« 1 af 3 »
Jóna Símonía Bjarnadóttir forstöðumaður Safnahússins á Ísafirði fer á laugardagsmorgun, 16. júlí 2016, fyrir sögugöngu um Eyrina; það er gömlu byggðina á eyrinni við Skutulsfjörð. Segja má að það svæði skiptist í þrennt; það er Hæsta-, Mið- og Neðstakaupstað en á þessum slóðum eru áberandi hús sem eru byggð á 19. öldinni og þeirri 20. öndverðri. Í leiðangri þessum, hvar lagt verður upp frá svokölluðu Edinborgarhúsi við Hafnarstræti kl. 10, verða göturnar þræddar ein af annarri og greint frá ýmsum merkisstöðum og byggingum.

 

Búðirnar allar á eyrinni

„Við munum að mestu halda okkur við Mið- og Hæstakaupstað. Fara um Silfurtogið og að Austurvelli. Fara svo um litlu göturnar sem liggja milli Hafnarstrætis og Fjarðarstrætis; það er Pólgötu, Mjallargötu, Mánagötu, Hrannargötu og Sólgötu svo ég nefni nokkra staði á þessum slóðum. Þarna eru margar fallegar og svipsterkar byggingar, svo sem Hæstakaupstaðarbúðin og Faktorshúsið sem eru við Austurvöll,“ segir Jóna Símonía. Hún er Ísfirðingur í húð og hár, er gagnkunnug sögu bæjarins og því stundum kölluð til leiðsagnar um þessar slóðir.

Árið 1786 var gefin út tilskipun frá Danakonungi um afnám einokunarverslunar á Íslandi – og í krafti þess voru stofnaðir 6 kaupstaðir á Íslandi. Þar með komst sjálfstæð verslun á Ísafirði á legg sem ásamt útgerð þilskipa lagði grunn að þéttbýlismyndun þar. Verslanirnar í bænum voru allar á eyrinni og svo fór árið 1866 þegar nokkuð á þriðja hundrað manns bjuggu orðið þar að óskað var eftir því að stofna sjálfstæðan kaupstað á Skutulsfjarðareyri eins og gekk eftir. Framhaldið af því varð löng saga sem ekki verður rakin hér.

„Ísafjörður varð mjög fljótt, að minnsta kosti á íslenska vísu, öflugur þéttbýlisstaður og vel skipulagður. Þegar kom svo fram að aldamótunum 1900 fór staðurinn mjög að vaxa og fjöldi húsa í bænum, meðal annars á þeim slóðum sem við förum um, var reistur,“ segir Jóna sem endar tveggja klukkustunda gönguferð sína á svonefndu Eyrartúni, sem Gamla sjúkrahúsið stendur við. Það er nú Safnahús Ísafjarðar sem hýsir ýmsa góða menningarstarfsemi sem leiðsögumaðurinn er í forsvari fyrir.

 

Arkitektinn vildi háborg

„Gamla sjúkrahúsið var tekið í notkun árið 1925 og þjónaði okkur Vestfirðingum fram undir 1990. Á sínum tíma var þetta einn best útbúni spítali landsins og vel að öllu staðið,“ segir Jóna sem getur þess að sjúkrahúsið hafi verið hluti af skipulagi Eyrbekkingsins Guðjóns Samúelssonar arkitekts sem vildi reisa háborg á Eyrinni á Ísafirði. Átti sjúkrahúsið samkvæmt því að fylgja kirkju, skóla, ráðhúsi og íbúðarhúsum. Fyrirætlanir þessar urðu þó ekki að veruleika.

„Húsin í bænum og fólkið sem í þeim bjó eiga öll sína sögu. Gjarnan eru timburhús hér í elsta hluta bæjarins. Sum voru raunar byggð annars staðar og svo flutt hingað á Ísafjörð. Það gerir frásagirnar auðvitað áhugaverðari og af nægu er að taka.“

 

Morgunblaðið fimmtudaginn 14. júlí 2016.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31