A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
25.08.2015 - 10:46 | Edinborgarhúsið,BIB,bb.is

Innritun í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar

Edinborgarhúsið á Ísafirði sem Dýrfirðingurinn Rögnvaldur Ólafsson teiknaði.
Edinborgarhúsið á Ísafirði sem Dýrfirðingurinn Rögnvaldur Ólafsson teiknaði.
« 1 af 3 »

Nú stendur fyrir innritun í Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar og er margt í boði á haustönn. 

Tónlistarkennsla, danskennsla og ýmiskonar námskeið. 

Skrifstofa skólans er opin alla daga frá kl. 9:00 - 16:00 og allar upplýsingar má finna á heimasíðu skólans 
www.edinborg.is og í síma 456 5444

 


Edinborgarhúsið

 

Edinborgarhúsið er allt nýuppgert og er staðsett í miðbæ Ísafjarðar. Gott aðgengi er að húsinu og næg bílastæði. Margvísleg starfsemi er í húsinu, bæði á sviði lista, menningarviðburða, ferðaþjónustu og veitingareksturs. Innangengt er í veitingahús sem tekur 100 manns við borð og við Upplýsingamiðstöð ferðamála, sem er á jarðhæð í suðurenda hússins. Einnig er ferðaskrifstofan Vesturferðir með aðsetur í húsinu.

 

 

Menningarmiðstöðin í Edinborg hefur, í gegnum tíðina, staðið fyrir fjölmörgum viðburðum. Í húsinu er einnig starfræktur Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar. Skólinn var stofnaður til að veita almenna fræðslu á sviði myndlistar, leiklistar, tónlistar og danslistar.

 

Edinborgarhúsið hefur alltaf vitnað um stórhug. Þegar það var reist árið 1907 bar það höfuð og herðar yfir flest mannanna verk á norðanverðum Vestfjörðum. Teikningar Rögnvaldar Ólafssonar arkitekts, síðar húsameistara ríkisins, gerðu það óvenju glæsilegt þar sem það stóð á áberandi stað við Pollinn, stolt nýrrar aldar.

 

 

Sjálft er Edinborgarhúsið bæði listmunur og söguleg arfleifð. Að líta það augum er upplifun, að koma inn í það er ævintýri. Eins og Kögur og Horn og Heljarvík mun það seiða hugi þeirra sem róa á mið mannsandans, í senn látlaust og tilkomumikið, gamalt og nýtt – eins og lífið sjálft.


Starfsfólk og menningarnefnd

 

Starfsfólk

Henna-Riikka Nurmi                Danskennari við Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar

Margrét Gunnarsdóttir             Skólastjóri & kennari við Listaskóla RÓ

Matthildur Helgadóttir Jónudóttir  Verkefnastjóri Menningarmiðstöðin Edinborg

Matthildur Helgadóttir Jónudóttir  Rekstrarstjóri  +354-8525422

 

Menningarnefnd

Halla Sigurðardóttir                  Fulltrúi Litla leikklúbbsins

Guðmundur M. Kristjánsson     Fulltrúi bæjarbúar

Margrét Gunnarsdóttir              Fulltrúi Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar

Ólöf Björk Oddsdóttir               Fulltrúi Myndlistarfélagsins á Ísafirði 


Saga hússins

 

Um aldamótin 1900 var Edinborgarverslun eitt stærsta verslunarfyrirtæki landsins. Hún var stofnsett í Reykjavík árið 1895 og var annar eigandi hennar Ásgeir Sigurðsson sonur Sigurðar Andréssonar, smiðs og kaupmanns á Ísafirði. Þeir feðgar létu til sín taka á sviði leiklistar, þó það væri með nokkuð ólíkum hætti.

 

Ásgeiri fæddist launsonur árið 1901, sem síðar varð einn ástsælasti leikhúsmaður þjóðarinnar, hann hét Haraldur Ásgeirsson Sigurðsson en Sigurður pabbi hans gat hinsvegar af sér gamanleikinn Geitjón, sem var sýndur á Ísafirði um 1880 og mun vera fyrsta revía sem sýnd var hér á landi.


Eigandinn á móti Ásgeiri í versluninni var skoska verslunarfyrirtækið Copland and Berrie í Leith, nágrannabæ Edinborgar. Fyrstu árin var starfsemi Edinborgarverslunar bundin við Reykjavík, en ekki leið á löngu, uns fyrirtækið færði út kvíarnar. Árið 1900 voru menn á þess vegum farnir að kaupa fisk á Ísafirði.

 

Ásgeir Sigurðsson þekkti vel til á Ísafirði, - var fæddur þar og uppalinn til 10 ára aldurs, vissi mætavel að að fiskkaup þar gátu gefið drjúgt í aðra hönd og að verslanir í bænum þrifust margar vel. Edinborgarverslun opnaði fyrst verslunarbúð á Ísafirði árið 1902. Árið 1903 varð Karl Ogeirsson, verslunarstjóri Edinborgarverslunar á Ísafirði og meðeigandi fáum árum síðar.

Á fundi bygginganefndar Ísafjarðar 6. apríl árið 1907 var tekin fyrir umsókn frá Edinborgarverslun um byggingarlóð við Pollinn. Nefndin samþykkti að mæla versluninni út lóð og heimilaði jafnframt byggingu húss samkvæmt teikningu eftir Rögnvald Ágúst Ólafsson. Bryggjuhús og bryggja Edinborgarverslunar reis árið 1907. Húsið var risið 7. desember 1907; af því tilefni var bróðir Rögnvaldar, Jón Þ. Ólafsson, byggingarmeistari hússins ljósmyndaður við það, en húsið og bryggjan var lengi eitt mesta mannvirki á Ísafirði.


Árið 1917 hætti Edinborgarverslun starfsemi á Ísafirði, og keypti Karl veslunarstjóri þá hlut fyrri húsbænda sinna í fyrirtækinu. Karl rak fyrirtækið svo einn um hríð.  Árið 1918 gerðist Jóhann E. Þorsteinsson meðeigandi og ráku þeir það saman undir nafninu Karl & Jóhann til ársins 1923. Karl seldi  sinn hlut í fyrirtækinu en nokkru fyrr hafði Sigurjón Þ. Jónsson gengið inn í fyrirtækið, þeir Jóhann og Sigurjón héldu rekstrinum áfram til 1926. Með þessum mönnum eru nefndir til sögu einir kunnustu borgarar á Ísafirði á fyrri hluta síðustu aldar.

 

Togarafélag Ísfirðinga

Togarafélag Ísfirðinga h.f. var stofnað 1925 og var til húsa í Edinborg. Félagið festi þegar í stað kaup á togara í Bretlandi og kom hann til Ísafjarðar í febrúar sama ár. Hann hlaut nafnið Hávarður Ísfirðingur og var gerður út undir því nafni til 1939. Útgerðin gekk bærilega framan af, en á kreppuárunum tók að halla undan fæti. Árið 1935 var svo illa komið að Landsbankinn tók reksturinn yfir, hlutafé var aukið, m.a. með þáttöku bæjarsjóðs. Í framhaldi af þessu var nafninu breytt í h.f. Hávarður, en allt kom fyrir ekki og árið 1938 varð h.f. Hávarður gjaldþrota. Ekki mátti bæjarsjóður til þess hugsa að missa skipið úr bænum og var þá stofnað nýtt hlutafélag um rekstur þess, m.a. með þátttöku Kaupfélags Ísafirðinga. Nýja hlutafélagið hlaut nafnið Valur, og var togarinn Hávarður Ísfirðingur afhentur því, skýrður upp og nefndur Skutull.

 

Kaupfélag Ísfirðinga

Það verslunarfyrirtæki á Ísafirði, sem mest efldist á millistríðsárunum var Kaupfélag Ísfirðinga, hið þriðja með því nafni. Það var stofnað 1920 og varð aðili að Sambandi íslenskra samvinnufélaga árið 1923. Framan af hafði það nær eingöngu vörusölu með höndum en brátt jukust umsvif þess og á fjórða áratugnum haslaði það sér völl á fleiri sviðum, setti á stofn mjólkurstöð, kjötvinnslu o.fl. Auk þess að eiga hlut í h.f. Hávarði átti félagið stóran hlut í útgerðarfélaginu Nirði. Árið 1937 eignaðist Kaupfélag Ísfirðinga þær eignir, sem áður höfðu tilheyrt Edinborgarverslun, fiskreita, og hús, þ.á.m. Edinborgarhúsið. Þar verkaði það fisk úr bátum Njarðar, sem gerði út Dísirnar. Skömmu eftir 1945 var komið upp í húsinu þurrklefa, sem gerði kleift að þurrka fisk innan dyra allan veturinn. Edinborgarhúsið var í eigu Kaupfélags Ísfirðinga í rösk 50 ár, eða þar til Samband íslenskra samvinnufélaga tók yfir eignir félagsins.

Sögulegt atvinnu- og menningarsögulegt gildi Edinborgarhússins er ótvírætt. Húsið er byggt í árdaga tækni- og vélvæðingar og hefur verið samferða framsýnum eigendum sínum á meðan húsið hentaði þeirra aðstæðum.  Með þetta að leiðarljósi var stofnað einkahlutafélag um menningarmiðstöð í Edinborgarhúsinu á Ísafirði 9. september 1992.


 
« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31