A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
15.03.2016 - 20:48 | bb.is,Vestfirska forlagið

Íbúar í Kardemommubænum flytja lögheimili sitt í Dýrafjörð

Kardemommubærinn og hluti íbúa hans, eins og þeir birtast á Þingeyri.
Kardemommubærinn og hluti íbúa hans, eins og þeir birtast á Þingeyri.
Þessa dagana eru íbúar í Kardemommubænum í óða önn við að gera heimkynni sín klár, svo bjóða megi til bæjarins á laugardag, en þá mun leikdeild Höfrungs á Þingeyri frumsýna hið vinsæla verk Thorbjörns Egner, Kardemommubæinn í Félagsheimili Þingeyrarar. Leikdeild Höfrungs á Þingeyri hefur verið sérlega iðin við kolann síðustu ár og sett upp vandaðar og vinsælar leiksýningar fyrir alla fjölskylduna, eins og ævintýrið um kraftastúlkuna knáu Línu langsokk og Galdrakarlinn í Oz, með öllum sínum skrautlegu persónum. 

Verkið um fólkið í Kardemommubæ hefur verið meðal vinsælustu barnaleikrita allra tíma hér á landi og íbúar staðarins fundið sér stað í hjörtum barna á öllum aldri. Þar má nefna Bastían bæjarfógeta sem gætir þess að allt sé í röð og reglu í bænum, Sörensen rakara, Tomma og Kamillu litlu. Þeir félagar Kasper, Jesper og Jónatan eru þó sennilegast hve frægastir Kardemommubæjarbúa, nema ef vera kynni að hörkutólið hún Soffía frænka tæki þeim fram í vinsældum. 

Sýningin er sérlega viðamikil, þar sem um 20 leikarar koma fram og annar eins fjöldi kemur við sögu á bakvið tjöldin við að farða leikarana, lýsa leiksviðið, selja miða, smíða leikmynd og svo ótal margt annað, þannig að leiða má að því líkur að um 17% íbúa á Þingeyri taki þátt í uppsetningunni.

Kardemommubærinn verður frumsýndur laugardaginn 19. mars kl.14. Önnur sýning verður strax daginn eftir á sama tíma. Á páskum verða þrjár sýningar tvær á föstudaginn langa 25. mars kl.13 og 17. Loks verður leikurinn sýndur á laugardag 26. mars kl.13. Miðasala á allar sýningar er þegar hafin í síma: 864 2974.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31