A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
15.06.2015 - 16:26 | Hallgrímur Sveinsson

Í tilefni 17. júní: Hver var Jón Sigurðsson? - 2. grein

Jón Sigurðsson um fimmtugt. Á hátindi ferilsins.
Jón Sigurðsson um fimmtugt. Á hátindi ferilsins.
« 1 af 2 »
2. grein
 
Þau Ingibjörg bjuggu í Kaupmannahöfn allan sinn búskap og þaðan stjórnaði hann sjálfstæðisbaráttunni við Dani hátt í 40 ár. Á þeim tíma hafði enginn Íslendingur samband við jafn fjölmennan hóp landsmanna og má nefna að á söfnum landsins eru til yfir 6000 sendibréf til Jóns, sem hann varðveitti, frá um 870 bréfriturum.

   Lifibrauð sitt hafði hann af ýmsum vísindastörfum og vinnu við Árnasafn, þar sem hin fornu íslensku handrit voru varðveitt. Fræðistörf hans ein mega heita fullkomið ævistarf, enda kunni hann að skipuleggja störf sín.

   Jón var forseti Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafélagsins og hlaut af því viðurnefnið forseti. Forseti íslenska lýðveldisins var hann aldrei af skiljanlegum ástæðum.

    Þá var hann potturinn og pannan í öllum störfum Alþingis allt frá endurreisn þess og til æviloka. Forseti Alþingis var hann alls á 10 þingum, eða lengur en nokkur annar fyrr og síðar. Það voru skoðanir Jóns Sigurðssonar sem mest mótuðu störf þingsins fyrstu áratugina og má segja að andi hans hafi svifið þar yfir vötnum allt til þessa dags.

   Jón sigldi 29 sinnum yfir Íslandsála á misjöfnum farkostum, m. a. til að stjórna fundum Alþingis. Oftast var eiginkonan með í för.

   Þekking Jóns Sigurðssonar á sögu og bókmenntum Íslendinga og ást hans á íslensku fólki, máli þess og menningu, auðveldaði honum að verða sá foringi sem hann varð. Hann var bardagamaður, einarður og ósérhlífinn, fylginn sér og harðsnúinn. En hann barðist hvorki með byssu né sverði heldur var orðsins brandur og söguleg rök helstu vopn hans.

   Ný félagsrit voru málgagn hans. Þar barðist hann fyrir stjórnfrelsi, kjörfrelsi, málfrelsi, verslunarfrelsi og atvinnufrelsi til handa Íslendingum og birti ótal hvatningargreinar til Íslendinga um hvaðeina sem verða mátti landinu til viðreisnar.

   Fullt löggjafarvald, aðskilinn fjárhagur, jafnrétti og innlend stjórn. Þetta var stefnuskrá Jóns Sigurðssonar og samherja hans í sjálfstæðisbaráttunni við Dani, sem hann birti í ritgerðinni Hugvekju til Íslendinga 1848.

   Á þjóðfundi 1851 ætluðu Danir að setja Íslendingum nýja stjórnskipun, þar sem lítið tillit var tekið til óska Íslendinga. Fundinum lauk með því að flestir fundarmenn risu úr sætum og sögðu: "Vér mótmælum allir."

   Á þjóðfundinum urðu tímamót á stjórnmálaferli Jóns Sigurðssonar. Eftir fundinn var enginn vafi á því hver var óumdeildur fyrirliði þjóðarinnar.

   Jón Sigurðsson taldi, að ætti líf og fjör að færast í Íslendinga, þyrftu þeir að vera fjár síns ráðandi og fá að versla við þá sem þeir vildu sjálfir. Öflug forysta hans hafði úrslitaáhrif á að verslun við Ísland var gefin öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31