Í spegli tímans: „Skrifiði viðhald á Þingeyrarflugvöll!“
Þann 16. febrúar 2015 mátti lesa hér á Þingeyrarvefnum:
Ísafjarðarflugvöllur er hættulegasti flugvöllur í heimi. Þingeyrarflugvöllur í Dýrafirði er aftur á móti nýbyggður. Flottasti flugvöllur á Vestfjörðum. Þó víðar væri leitað. Enda segja sumir að hann sé varavöllur fyrir Ísafjörð. Hreint aðflug. Samt lítið sem ekkert notaður vegna viðhaldsleysis. Líkt og Róbert á Siglufirði segir um þeirra völl.
Skýrt merki um hnignandi byggð á vonarvöl, þar sem íbúarnir hafa veitt fisk, unnið í fiski, borðað fisk og talað um fisk frá upphafi byggðar í landinu.
Margir muna enn þingmanninn sem kom hingað vestur til að sækjast eftir endurkjöri. Hann spurði fólkið á einu krummaskuðanna hvað það væri sem helst vantaði. „Okkur vantar nú eiginlega flugvöll“ heyrðist utan úr sal. „Skrifaðu flugvöll“ skipaði þingmaðurinn ritara sínum. Nú er óhjákvæmilegt að þingmenn skipi stjórnsýslunni: „Skrifið viðhald á Þingeyrarflugvöll!“