A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
17.11.2016 - 20:33 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson

Í spegli tímans: Morgunblaðið 5. sept. 1995 - Landsþekkt fyrirtæki hættir rekstri

Guðmundur J. Sigurðsson vélsmíðameistari.
Guðmundur J. Sigurðsson vélsmíðameistari.
« 1 af 3 »

Hrafnseyri

- Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar og co. hf. á Þingeyri hætti að starfa þann 1. ágúst, eftir rúmlega 80 ára rekstur. Rekstur vélsmiðju hófst á Þingeyri um síðustu aldamót á vegum Gramsverslunar. Guðmundur J. Sigurðsson vélsmíðameistari hafði m.a. lært fag sitt í Noregi og Danmörku á vegum þeirrar verslunar og stofnaði síðan fyrirtæki sitt árið 1913. Var Guðmundur einn af frumkvöðlum alhliða smiðjureksturs hér á landi. Seinna starfaði sonur hans, Matthías vélaverkfræðingur, með föður sínum við rekstur fyrirtækisins. Eftir lát Guðmundar var Matthías framkvæmdastjóri fyrirtækisins til dánardægurs síðastliðið vor.

Undir stjórn þeirra feðga varð smiðjan á Þingeyri landsþekkt fyrir góða og vandaða þjónustu og einnig hjá þeim útlendingum sem stunduðu fiskveiðar við Ísland. Járnsteypan þar var t.d. ein af þremur þeim helstu á landinu um tíma. Frá rafmótor í smiðjunni kom fyrsta rafmagn sem leitt var í hús á Þingeyri og á ýmsum öðrum tæknilegum sviðum var þetta fyrirtæki í fararbroddi. Í seinni heimsstyrjöldinni átti fjöldi útvegsmanna um allt land smiðjunni það að þakka að þeir gátu gert út báta sína, þegar varahlutir í ýmsar bátavélar og spil voru nánast ófáanlegir. Þá var þrautalendingin að fá þá smíðaða á Þingeyri. Og "dráttarkarlinn", sem Matthías fann upp til að létta mönnum störf við línuveiðar, var þekktur bæði utan lands og innan.

Iðnskóli á Þingeyri

Fjöldi manna lærði vélsmíði og járnsmíði í smiðjunni á Þingeyri og þóttu það mjög góð meðmæli með mönnum ef þeir höfðu lært þar. Á tímabili ráku þau hjónin Matthías og Camilla Sigmundsdóttir iðnskóla í einni stofunni heima hjá sér.

Í lok fyrri heimsstyrjaldar fóru þýskir togarar að venja komur sínar til Þingeyrar eftir vatni og vistum og þegar viðgerða var þörf. Síðan bættust breskir togarar í þann hóp, en Matthías varð umboðsmaður þeirra upp úr 1950. Þegar sókn Breta á Íslandsmið var sem mest, mátti stundum sjá 15 til 20 síðutogara bundna hlið við hlið við bryggju á Þingeyri. Oft þurftu bresku skipstjórarnir að leita þar hafnar vegna veikra og slasaðra skipverja. Bar þá stundum svo við að læknislaust var á staðnum og gat það verið bagalegt t.d. ef taka þurfti röntgenmyndir. Er það í frásögur fært hér vestra, að umboðsmaðurinn hafi þá ekki dáið ráðalaus og tekið myndirnar bara sjálfur.

Nýtt fyrirtæki

Sama dag og Vélsmiðja Guðmundar J. Sigurðssonar hætti starfsemi, tók nýtt fyrirtæki við rekstrinum, Véla- og bílaþjónusta Kristjáns hf. og er eigandi þess Kristján Gunnarsson frá Hofi, en hann lærði í smiðjunni og starfaði þar í áratugi. Verður reksturinn með svipuðu sniði og hann var síðustu árin, að sögn Kristjáns. Þess skal getið að lokum að enn er margt með sömu ummerkjum í smiðjuhúsunum og þegar fyrirtækið hóf starfrækslu. Hafa kunnáttumenn látið þau orð falla, að slíkt sé mjög sjaldgæft og því sé um ómetanleg atvinnusöguleg verðmæti að ræða sem alls ekki megi fara forgörðum.

   (Síðan þessi orð voru skrifuð hafa þau ánægjulegu tíðindi orðið að smiðjan er orðin að safni. Munum við fjalla um það síðar hér á Þingeyrarvefnum).

 

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31