Í skóla sr. Eiríks „undir Gnúpi“
Upphaf greinarinnar er hér:
Í skóla sr. Eiríks „undir Gnúpi“
Sú hugsun mun hafa læðst snemma að mér að ég ætti að „fara að Núpi“. Einhvern veginn þótti mér það sjálfsagt en kveið samt mjög fyrir því að fara að heiman til dvalar þar. Það bjuggu nefnilega tveir skrýtnir menn í mér: Annar sem vildi vera heima á Kirkjubóli og fara hvergi. Hinn var fullur forvitni um það sem fjær var og framandi. Sá hafði betur og haustdag einn árið1958 er Múlajeppinn kominn til þess að flytja mig yfir að Núpi. Kvíði minn ágerðist eftir því sem á veginn leið. Samt man ég enn tilfinningu spennu og tilhlökkunar er laust niður í mér þegar Núpsþorpið blasti við af leitinu utan við Litla-Garð: Já, það var þarna sem ég átti að læra dönsku og ensku og allt hitt – verða lærður maður.
Mér þótti þá þegar staðarlegt og vel húsað á Núpi. „Þakrauð og hvítveggjuð“ stóðu steinhúsin þar, eins og Guðmundur Ingi kvað um annan skólastað: Skólahúsið í miðju þyrpingarinnar og nýtt heimavistarhús skammt utar. Kirkjan og Núpsbærinn fyrir innan. Núpsskóli naut á þessum árum álits ekki síst frá stjórnarárum sr, Sigtryggs Guðlaugssonar, stofnanda skólans, og Björn Guðmundssonar kennara og síðar skólastjóra. Er hér var komið hafði sr. Eiríkur J. Eiríksson stýrt skólanum um árabil svo gott orð fór af. Skólaár mín á Núpi urðu tvö síðustu skólastjórnar ár sr. Eiríks þar. Ekki veit ég þó til þess að neitt samband hafi verið þar á milli.
Núpsskóli var stór vinnustaður. Mér telst til að nær fimmtán manns hafi haft þar fulla vinnu vetrarlangt, jafnvel fleiri. Núpsbændur og fleiri lögðu mötuneytinu til ýmsar landafurðir og verslun skólans á Þingeyri var töluverð. Umsvifa skólans á þessum árum sá því stað í umhverfi hans – í Mýrahreppi var hann stóriðja sinnar tíðar. Það orð fór af skólanum að mikið færi fyrir krökkum sem hefðu verið „send að sunnan“ til betrunarvistar, og mátti það til sanns vegar færa. Þyngra vóg þó að skólinn gegndi enn því hlutverki að vera mennta- og menningarsetur byggðarinnar, hlutverki sem mótast hafði með frumherjastarfi ungmenna- og alþýðuskólans allt frá stofnun haustið 1906. Fjölmargir eldri nemendur skólans voru áberandi þar á Fjörðunum. Sjálfur hafði ég alist upp við frásagnir móðursystkina minna af eftirminnilegum dögum þeirra í Núpsskóla.
Og nú var ég kominn á Núpshlað sem verðandi nemandi við hinn gamla og gróna skóla. Ég átti von á því að deila herbergi með frændum mínum frá Þingeyri því um það hafði verið rætt. Það urðu mér því mikil vonbrigði er í ljós kom að mér var ætlaður staður á sex manna herbergi með alókunnum strákum að sunnan. Varð mér brátt ljóst að þeir voru veraldarvanari en ég, og þekktust auk þess fyrir, nokkrir þeirra. Og þarna setti ég sængurpokann minn á rúmið og brúnu ferðatöskuna við stokk þess. Verðandi herbergisfélagar mínur hófu strax yfirheyrslur sem ég reyndi að svara eftir bestu samvisku. Mér var ekki rótt vegna allstórrar peningaupphæðar að þeirrar tíðar mati sem ég hafði í brjóstvasa mínum, skólagjaldinu. Móðir mín blessuð hafði gengið frá henni þar og lokað vasanum með stórri sikkrisnælu, svo að ég týndi aurunum ekki á ferð minni. Utan yfir skyrtunni var ég í gráleitri vestispeysu af föður mínum, ekki beint fati sem taldist í móð af jafnöldrum mínum, óttaðist ég. Ég varð feginn er ég hafði komið peningunum í hendur Arngríms kennara Jónssonar sem var eins konar gjaldkeri skólans.
Án þess ég vissi af var ég feiminn og hljóður kominn inn í hringiðu þeirra rúmlega eitt hundrað nemenda sem þarna voru mættir til náms þetta haust. Ósköp var ég þó hikandi samanborið við frændur mína frá Þingeyri sem strax fundu fjalirnar sínar í þessu líflega umhverfi og nutu sín vel.
Fyrsta kvöldið varð mér minnisstætt. Allir skyldu vera komnir í ró á herbergjum sínum kl. 23 og sá Arngrímur kennari til þess á eftirlitsgöngu sinni. Í herbergi okkar sexmenninganna hagaði svo til að fjórir þeirra höfðu rúm í kojum en tveir okkar rúm gegnt kojunum. Félagar mínir höfðu komið að Núpi degi eða tveimur fyrr þannig að þeir höfðu þegar komið sér fyrir. Ég hóf að búa um rúm mitt. Allt var fallega frágengið í töskunni frá móður minni svo vandalítið var verkið. Brátt rann upp fyrir mér sú blákalda staðreynd að ég var í síðum ullarnærbuxum. Móðir mín hafði nefnilega talið að það væri alls ekki gefið að hlýtt væri í húsum þar á Núpi svona fyrstu dagana. Því væri hyggilegt að ég klæddi mig vel. Ég gaf mér góðan tíma við rúmumbúnaðinn. Félagar mínir kepptust við að segja sögur og skjóta ýmsum athugasemdum hver á annan, allir í þunnum nærfötum og meira að segja sumir í stuttbrók einni – veraldarvanir menn og nútímalegir. Reynsluheimur minn lá allfjarri þeirra víðu veröld. Eftir hæfilegt dund varð mér ljóst að úr utanyfirbuxunum yrði ég að fara. Reyndi ég að undirbúa það verk svo að sem stytstan tíma tæki, enda óttaðist ég óþægilegar athugasemdir um ullarnærbuxurnar frá félögum mínum sem allir voru komnir undir sæng. Engum þeirra datt í hug að slökkva ljósið, sem vissulega hefði komið mér best. Á meðvitundarlitlu augnabliki skaust ég úr brókinni og undir sæng mína. Eftir á undraði mig að engin athugasemd um klæðnað minn skyldi falla. Hins vegar tók ég eftir undrunarþögn og furðusvip félaganna í kojunum á móti. Eiginlega varð hvort tveggja mér þungbærara en strákslegar athugasemdir hefðu orðið. En einhvern veginn kom fyrsta nóttin þar undir Núpnum og tók mig í fang sér. Í skjóli nætur laumaðist ég úr ullarnærbuxunum í aðrar er ég taldi betur falla að ríkjandi tísku. Þar með lauk notkunartíma ullarnærbuxna minna á Núpi.
Nýr dagur reis og námið hófst. Undirbúningur minn var í knappara lagi og því þurfti ég nokkuð fyrir því að hafa í fyrstu. Ég náði þó þolanlegum námstakti fljótlega. Munaði þar ekki minnst um lestímana á milli miðdagskaffis og kvöldmatar þar sem við nemendurnir sátum í kennslustofu undir eftirliti kennara og bjuggum okkur undir næsta dag. Eftirlitskennari veitti okkur aðstoð ef um var beðið en annars var hlutverk hans að haldi ró og friði með þessum stóra og sundurleita hópi.
Eitt framtak skólans þarna á fyrstu starfsdögunum varð mér sérlega eftirminnilegt, og lúmskara að jákvæðum áhrifum en flest annað – það sá ég seinna: Sigurður íþróttakennari Guðmundsson dreif okkur öll út í leikfimisal. Nú skyldi kenna dans. Þar hafði Sigurður komið fyrir grammófóni og tók nú að skipa fyrir um uppstillingu og frumatriði geinarinnar: Hvernig herrar skyldu ganga fram fyrir dömur og bjóða þeim upp. Okkur strákunum var raðað upp í salnum innanverðum en stelpunum að utanverðu. Síðan skyldum við ganga stillilega yfir gólfið, staðnæmast og hneigja okkur fyrir þeirri dömu sem röðin bauð. Sigurður kallaði veraldarvana stelpu sér til aðstoðar og hafði sýnikennslu í frumatriðunum. Síðan setti hann grammófóninn af stað: Sail Along Silv´ry Moon með Billy Vaughn og fleiri popplög þeirrar tíðar tóku að hljóma um salinn. Og þarna tróðum við af stað mis stirðbusalegir strákarnir með dömurnar í fálmandi örmum, undir öruggum skipunum Sigurðar. Ég var svo heppinn að fá í fang mitt langfrænku mína að sunnan – af Samsonarætt. Stór og fönguleg var hún og ekki að dansa í fyrsta skipti. Komst ég því ekki upp með annað en að fylgja henni og læra fyrstu sporin en varla þorði ég að líta upp; þurfti líka að sjá fótum mínum forráð. Að hverju lagi loknu var okkur kennt að þakka dömunni og skila henni til sætis. Svo kom nýtt lag, nýr taktur, ný dama. Líka var marserað aftur og fram. Dansæfingarnar voru endurteknar nokkrum sinnum. Þær höfðu ákaflega mikil og góð áhrif á andann í skólanum, þótti mér, og ýttu undir það að kvöldvökur og aðrar samverustundir þar á Núpi urðu óþvingaðar, skemmtilegar og skildu eftir sig góða minningu.
En meðal fimmmenninganna í heimavistarherberginu leið mér ekki of vel. Til þess voru reynslu- og áhugaheimar okkar of ólíkir og vilji til nánari kynna í það knappasta. Ég barði því í mig kjark og leitaði til Arngríms kennara um möguleg skipti á verustað. Hann kvaðst mundu hafa það í huga ef eitthvað breyttist. Og svo fór. Nemandi hvarf frá námi eins og oft mun hafa gerst á fyrstu vikum skólans. Rými varð laust á fjögurra manna herbergi þar sem fyrir voru Eiríkur Eiríksson frá Þingeyri, og Haukur Gunnarsson, fatlaður drengur þaðan, sem ég þekkti líka. Þriðji pilturinn var Jón Waage, sem ættaður frá Hrafnseyri við Arnarfjörð, og hafði dvalið þar oft hjá ömmu sinni og afa. Þóttist ég því þar vera kominn meðal kunnugra. Glaður tók ég föggur mínar til þess að færa mig um set. Forsprakkar herbergisfélaga minna hófu þá duglegar skammir yfir mér, brugðu mér um aumingjaskap, sleikjuhátt, sveitamennsku og sitthvað fleira. Undir þeim hljóðum tók ég sæng mína og gekk, eins og maðurinn austur í Gyðingalandi um árið eftir kraftaverk Jesúsar, og varð feginn friðnum meðal nýrra herbergisfélaga. Fyrrverandi herbergisfélagar mínir hurfu hins vegar skjótt úr minni veröld. Ég verð þó að nefna það að helsti talsmaður þeirra varð með árunum einn vinsamlegasti og besti félaginn frá Núpi sem ég mæti á förnum vegi.
Eftir að ég hafði sæst við sjálfan mig og aðra hvað herbergin og vistarfélagana snerti fór mér að líða skár – og eiginlega þeim mun betur sem lengra á dvölina saxaðist. Náði ég ágætum árangri á yngri deildar prófi vorið 1959 og hélt heim að Bóli sem lærður maður að mér fannst. Fór jafnvel svo að mig hlakkaði hálft í hvoru til þess að hefja nám á Núpi seinni vetur minn – landsprófsveturinn.
Á hinum nýja vistarstað leiddist ég óafvitandi inni í hlutverk sem ég verð ævinlega þakklátur forsjóninni fyrir. Haukur, herbergisfélagi minn, var sem fyrr sagði, fatlaður og átti mjög erfitt með gang. Hann var hins vegar afar harður af sér, duglegur og svo sterkur í höndum að undrum sætti. Leiðin á milli heimavistar og skóla var ekki greið fötluðum pilti: Töluverðar tröppur í báðum húsum og vænn spotti á milli sem torfær var í snjóum þótt fljótt træðist. Einhvern veginn varð það svo að ég tók að bera námsbækur Hauks og að fylgja honum í og úr skóla. Ég átti jú leið hvort eð var svo mér varð þetta ekki aukavik heldur sjálfsagður hlutur sem við töluðum aldrei um. Eiginlega þótti mér styrkur af því að fylgja Hauki því hann var vel djarfur í tali og lét engan eiga neitt hjá sér lengur en þurfti. Fjölskylda Hauks galt mér þessa fylgd margfaldlega með frændrækni sinni og vináttu æ síðan. Verð ég lengi þakklátur fyrir þann þroska sem þetta litla hlutverk færði mér – þroska sem ég veitti ekki athygli fyrr en löngu, löngu seinna.
Með hinum nýju herbergisfélögum eignaðist ég margar góðar stundir. Eiríkur var glaðbeittur og harður framsóknar- og samvinnumaður, enda kaupfélagsstjórasonur frá Þingeyri, Þorsteinssonar alþingismanns, sem m.a. var einn af þeim sem fann upp hugtakið um jafnvægi í byggð landsins og barðist fyrir því. Snerrur tók Eddi því af og til um hugsjónir sínar við hvern sem var. Þótti mér skjól af þeim.
Minnisstæð er mér líka ein stund er þeir herbergisfélagar mínir, Eddi og Jón, ræddu kvennamál yfir mér, víst vegna þess að þeim þótti ég gerðahægur í þeim efnum. Endaði umræðan með því að Jón kvað systur sína koma í skólann næsta vetur og að hann skyldi gefa mér hana. Hún væri alveg passandi fyrir mig. Verða þeir Eddi sammála um að ganga formlega frá málinu. Eddi les þá fyrir og Jón skrifar upp yfirlýsingu um skilyrðislausan forgang minn að og eign á systur Jóns. Staðfestir gerninginn síðan með dagsetningu og undirritun. Gott ef Eddi vottaði ekki yfirlýsinguna með eigin undirskrift. Yfirlýsingin þokaði svo fyrir önnum daganna og gleymdist – um hríð.