A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
26.07.2016 - 20:36 | Vestfirska forlagið,Þorgeir Pálsson

Hversu miklu máli skiptir landsbyggðin?

Þorgeir Pálsson. - Hann er tengdasonur Dýrafjarðar.
Þorgeir Pálsson. - Hann er tengdasonur Dýrafjarðar.
Man einhver eftir því að einhver ríkisstjórn á Íslandi hafi tekið þá pólitísku ákvörðun að viðhalda byggð á landsbyggðinni, óháð kostnaði? Man einhver eftir því að stjórnmálamenn hafi horft á allt landið sem sinn starfsvettvang og horft lengra fram í tímann en fjögur ár? Man einhver eftir því að jákvæð umræða um landsbyggðina hafi skyggt á þá neikvæðu? Það væri gaman að vita það, svona okkur öllum til fróðleiks. 

Landsbyggðin skiptir miklu máli fyrir landið allt. Þetta er ekki bara spurning um heimili fyrir fjölda fólks, eða verðmætatölur sjávarafla í hagtölum svo dæmi séu tekin. Í desember s.l. kom út skýrsla, unnin af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Þróunarsviði Byggðastofnunar. Þar kemur ýmislegt fram sem vert er að hafa í huga þegar fólk ræðir um landsbyggðina og stöðu hennar og byggir þessi grein að hluta til á henni. 

Vissir þú til dæmis að: 

• Fjórði hver Íslendingur býr á landsbyggðinni 
• 94% framleiðslu í landbúnaði á sér stað á landsbyggðinni. Það er aðeins vinnslan sem er á höfuðborgarsvæðinu, landbúnaðurinn sjálfur er á landsvísu. Það er því markmið í sjálfu sér að auka fullvinnslu á landsbyggðinni 
• 78% framleiðslu í sjávarútvegi er á landsbyggðinni 
• Um 50% framleiðslu í stóriðju og veitum er á landsbyggðinni 
• Og, að annar hver skráður Pírati er búsettur á landsbyggðinni? 

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um stöðu landsbyggðarinnar í stóru myndinni. 

Sú mynd sem okkur er hins vegar svo oft sýnd, snýst um hagtölur, hagvöxt og aðra mælikvarða á árangur. Hagvöxtur er gjarnan notaður sem mælikvarði á hversu vel gengur í atvinnu- og efnahagslífi og þá um leið hversu vel stjórnvöld virðast standa sig í því hlutverki að tryggja uppgang og velmegun í landinu. Gallinn við þennan mælikvarða, eins og svo marga mælikvarða, er að hann byggir oft á einföldum og/eða fáum breytum og því litast auðveldlega af þeim. Mælikvarðinn gefur því ekki alltaf raunverulega mynd af ástandinu. Tökum dæmi: 
Hagvöxtur mældist hvergi meiri á landinu en á Vesturlandi á árunum 2009- 2013, eða 13%. Á bak við þennan hagvöxt er hins vegar fyrst og fremst stóriðjan á Grundartanga, þar sem fremur fáir vinna miðað við virði framleiðslunnar. Mestur virðist hagvöxturinn vera í stóriðju og veitum, öðrum iðnaði og starfsemi hins opinbera. Hlutdeild stóriðju og veitna er yfir 30% af framleiðslu á Vesturlandi. Hlutdeild landbúnaðar er t.d. lítil eða 2% af framleiðslu og þáttur ferðamanna í hagvexti á þessu tímabili er sömuleiðis lítill. Hlutdeild sjávarútvegs er minni en víða annars staðar, eða 12% árið 2013. 

Árið 2013 var framleiðsla á Vesturlandi um 5% landsframleiðslu. 

Hvað segir þessi hagvaxtar tala, 13%, okkur því í raun um stöðu atvinnulífs og lífsskilyrði á Vesturlandi? 

Á Vestfjörðum er myndin önnur. Þar hefur orðið verulegur samdráttur í hagvexti á sama tíma, eða um 11% frá 2009 til 2013. Sjávarútvegur er hvergi jafnmikil undirstaða byggðar í landinu en á Vestfjörðum og á Austurlandi. Sjávarútvegur telst skila 24% af framleiðslunni á Vestfjörðum. Þá vegur opinber þjónusta þyngra í framleiðslu en í flestum öðrum landshlutum, eða 24%. Aðrir stórir þættir framleiðslunnar eru bankar, tryggingar og fasteignir með 17% og verslun, hótel, veitingasala og samgöngur með 13% af heildarframleiðslu á Vestfjörðum frá 2009-2013. 

Hlutur Vestfjarða í landsframleiðslu var um 1,5 % árið 2013. 

Norðvesturland, sem er þriðja svæðið í Norðvesturkjördæmi, býr við svipaðan hagvöxt og á landinu öllu á tímabilinu, eða um 4%. Í þessum landshluta munar verulega um landbúnað, sem telur 8% af heildarframleiðslu. Mestu skiptir þó opinber þjónusta, eða 26%, síðan flokkurinn verslun, hótel, veitingar og samgöngur með 18%, þar næst bankar, tryggingar og fasteignir 17% og sjávarútvegur stendur fyrir 11% af heildarframleiðslu. 
Hlutur Norðurlands Vestra í landsframleiðslu var ríflega 1½ % árið 2013 

Staða Norðvestur kjördæmis 

Því verður seint haldið fram að Norðvesturkjördæmi sé einsleitt svæði. Þessi stutta upptalning, m.a. á niðurstöðum skýrslu Hagfræðideildar Háskóla Íslands og Byggðastofnunar, sýnir t.d. ólíka uppbyggingu atvinnulífs, ólíka máttarstólpa þessara svæða, ólíkt vægi einstakra atvinnugreina og mjög ólíkt framlag svæðanna til landsframleiðslu. Allt þetta þarf að hafa í huga þegar ræða á uppbyggingu kjördæmisins. 

Samkvæmt skýrslunni þarf að til dæmis að: 

• Stöðva fólksfækkun á Vestfjörðum og raunar Ströndum líka 
• Auka vægi ferðaþjónustu á Vesturlandi. Hins vegar kom kippur í þá grein 2015, sem ekki kemur fram í skýrslunni 
• Auka fjölbreytni atvinnulífs á Norðvesturlandi, sérstaklega með stuðningi við ferðaþjónustu 
• Tryggja áframhaldandi grunnþjónustu á svæðinu 
• Lækka kostnað á hráefni til húsbygginga og stuðla þannig að uppbyggingu húsnæðis í minni þorpum 
• Lækka flutningskostnað, þannig að sjávarútvegur geti þrifist t.d. á Vestfjörðum, en flutningskostnaður þangað er sá hæsti á landinu 
• Bæta samgöngur, m.a. til að geta tekið við vaxandi fjölda ferðmanna, en umfram allt svo að fólk á landsbyggðinni aki á sams konar vegum og aðrir og búi þar við sams konar öryggi og aðrir 
• Takmarka eða stöðva sölu og/eða útleigu á húsnæði einbýlishúsum/öðru en sumarhúsum eða frístundahúsum til sumarafnota. Húsnæðismál eru sennilega stærsta vandamálið sem landsbyggðin öll stendur frammi fyrir. Skortur á húsnæði kemur í veg fyrir að aldraðir minnki við sig og rými þannig fyrir nýju fólki, t.d. fjölskyldufólki sem vill flytja á landsbyggðina. 

Skiptir landsbyggðin máli? 

Já. Hlutfall höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar m.t.t. búsetu, er ca 60/40 % og búa færri á landsbyggðinni. Íbúum þar fækkar á tímabilinu sem skýrslan tekur til og fjölgar á höfuðborgarsvæðinu. Staða höfuðborgarsvæðisins er mjög sterk. Í fyrsta sinn frá því að farið var að taka saman tölur um hagvöxt eftir landshlutum fyrir tæpum áratug er hlutur höfuðborgarsvæðisins í landsframleiðslu meiri en 70%. 

Hvað með ferðaþjónustuna? Landsbyggðin þarf alvöru hlutdeild í henni líka – og það verður að stöðva og breyta þessari markvisst dreifingu ferðamanna inn á Reykjavíkur-nærumhverfi. Stjórnvöld hafa sett fram stefnu um þetta atriði, en það bólar lítið á aðgerðum. 

Tækifærin eru til staðar, en það er ekki nóg. Það þarf stefnu og aðgerðaráætlun fyrir landsbyggðina. Það þarf pólitíska ákvörðunum að halda landsbyggðinni í byggð. Íslensk stjórnvöld hafa allt of lengi rætt um stefnumótun og markmið án þess að fylgja þeim eftir með alvöru aðgerðum. Í dag liggur t.d. fyrir að margir þjóðvegir landsins eru gamlir, einbreiðir, án nútíma stoppsvæða, fullir af einbreiðum brúm og langt frá því allir malbikaðir. Þetta er staðreynd árið 2016. Það er pólitísk ákvörðun að breyta þessu, en það skortir þor. Meira að segja við núverandi aðstæður, þar sem aukning í ferðaþjónustu milli ára er hátt í og stundum yfir 30% á ári, gerist ekkert stórtækt í þá veru að gera átak í samgöngumálum. Þar skortir þor. Það skortir getu til að taka ákvarðanir. 

Það skortir hins vegar ekki leiðir til tekjuöflunar. Með lækkun veiðileyfagjalds á íslenskan sjávarútveg, sem var ein fyrsta ákvörðun núverandi ríkisstjórnar, varð Ísland af mörgum milljörðum. Tekjur af veiðileyfagjaldi hafa lækkað úr 12,8 milljörðum á ári í 4,8 milljarða á árunum 2008-2014. Það má gera ýmislegt fyrir þá upphæð sem þarna hefur ,,horfið” úr ríkisrekstrinum, eða um 8 milljarðar. Og upphæðin 12,8 milljarðar gæti og ætti að vera miklu hærri, ef hagsmunagæslu væri sleppt og fólkið í landinu nyti forgangs. 

Íbúar í dreifbýli búa ekki við sömu skilyrði m.t.t. raforkuöryggis og raforkuverðs og íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að samræma raforkukostnað og lækka hann í dreifbýli, þannig að sama raforkuverð gildi. Þannig skapast t.d. færi fyrir bændur að stunda matvælavinnslu í dreifbýli. Þetta eru engin ný sannindi, þetta hefur verið vitað lengi. En, þarna skortir þor og pólitíska ákvörðun stjórnvalda. 

Lokaorð 

Allt of oft talar fólk um það sem valkost að búa á landsbyggðinni. Í þessum orðum felst vissulega þeirra skoðun eða trú sem allir eiga rétt á að hafa, en þarna liggur líka mikill misskilningur og þekkingarskortur. Íbúi á landsbyggðinni sem á fasteign sem er að verðgildi 30-40% af fasteignaverði í Reykjavík, hann á ekkert val. Hann selur ekki sína íbúð eða sitt hús og flytur í sambærilegt húsnæði í Reykjavík. Það er ekkert val og að halda slíku fram er barnaskapur og skortur á þekkingu. 

Við skulum því setja okkur það takmark öll, í anda grunngilda Pírata, að leita eftir upplýsingum og auka þekkingu okkar á aðstæðum. Þannig verður til málefnaleg, upplýst og uppbyggileg umræða, ekki fordómafull umræða hlaðin sleggjudómum og fáfræði. Landsbyggðin er gríðarlega mikilvæg allri þróun á Íslandi og þar liggja mörg af tækifærum framtíðarinnar. Þar liggur menningararfurinn, sagan og mannauðurinn, ekkert minni en á höfuðborgarsvæðinu. Þessa framtíð þarf að móta núna og til þess þurfa íslensk stjórnvöld að taka ákvörðun um að það skuli búið á landsbyggðinni. Að landsbyggðin njóti nákvæmlega sömu grunngerðar og innviða og höfuðborgarsvæðið. Allt annað er óskynsamlegt. 

Heimildir: 
• Hagvöxtur landshluta 2009-2013, Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Byggðastofnun-þróunarsvið, desember 2015 
• Kjarninn, Þórður Snær Júlíusson, 13. júlí 2016. 

Þorgeir Pálsson,
 í framboði fyrir Pírata í Norðvestur kjördæmi

 
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31