A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
15.08.2015 - 17:41 | Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið

Hver var Njáll Sighvatsson?

Njáll Sighvatsson (3. ágúst 1872 - 18. marz 1950) .
Njáll Sighvatsson (3. ágúst 1872 - 18. marz 1950) .

Njáll Sighvatsson (3. ágúst 1872-18. marz 1950) sonur Sighvatar Grímssonar Borgfirðings og eiginkonu hans, Ragnhildar Brynjólfsdóttur, var sannkallað alþýðuskáld í Auðkúluhreppi í Arnarfirði í tugi ára.

Njáll orti mikið alla ævi sína, þó hann teldi sig vart meira en hagyrðing. Til eru 540 vélritaðar síður í handriti í A-4 broti af skáldskap hans og kennir þar margra grasa. Þó er vitað að ekki hefur nærri allt varðveist sem Njáll orti og er það auðvitað algengt hjá slíkum sveitaskáldum sem alltaf voru tilbúin til að láta standa í hljóðstafnum við ótal tækifæri. Skáldskpur Njáls er geysilega fjölbreyttur og má kalla að hann hafi haft flesta ef ekki alla bragar-og kveðskaparhætti sem tíðkast í íslensku á valdi sínu. Hann hefur verið vel heima í Snorra.

   Til gamans skal sagt frá því, að Njáll notaði neftóbak lengst af ævi sinnar. Í seinna stríðinu fékkst ekki nema eitthvert lélegt tóbak, sem hann felldi sig ekki við, svo hann ákvað að hætta að taka í nefið. En það varð til þess að hann missti skáldskapargáfuna og kenndi hann því um. Sagði að sér dytti stundum í hug fyrripartur eða seinnipartur, en sér væri ógjörningur að prjóna nokkru við. Svo eftir tvö ár eða svo, fór hann aftur að taka í nefið og um leið gat hann farið að yrkja!

  Vestfirska forlagið hefur gefið út úrval ljóða Njáls í bókaflokknum Litlu bækurnar.

Sýnishorn af kveðskap Njáls:

 

                       Við læk
 
                Sko hvað lítill lindar foss
                lokast sárnauðugur,
                honum býður klaka koss
                kaldur einmánuður

 

Hallgrímur Sveinsson.

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31