A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
17.06.2017 - 06:10 | Vestfirska forlagið,Hallgrímur Sveinsson

Hver var Jón forseti?

Jón Sigurðsson um fimmtugt, á tindi manndómsáranna. Ljósmyndari ókunnur.
Jón Sigurðsson um fimmtugt, á tindi manndómsáranna. Ljósmyndari ókunnur.
« 1 af 2 »

   Jón Sigurðsson forseti, sem var eftirminnilegasti tímamótamaður íslenskrar sögu, fæddist á Hrafnseyri í Arnarfirði 17. júní 1811 og ólst þar upp til 18 ára aldurs. Foreldrar hans voru prestshjónin Þórdís Jónsdóttir og séra Sigurður Jónsson. Systkini Jóns voru Margrét, húsfreyja og bóndi á Steinanesi í Arnarfirði og Jens, kennari og rektor Lærða skólans í Reykjavík. Þau voru alin upp við iðjusemi, nákvæmni og hirðusemi í heimahúsum og kennt að bjarga sér sjálf.

   Samtímamaður þeirra hjóna, séra Oddur Sveinsson, sem tók við Hrafnseyrarstað þegar þau fluttust að Steinanesi með Margréti dóttur sinni 1851, lýsir þeim svo:

   "Þórdís var í meðallagi há, vel vaxin, andlitið frítt og gáfulegt, augun móleit og fjörmikil, kona var hún hæglát og geðgóð, en stjórnsöm á heimili. Góðhjörtuð var frú Þórdís talin og örlát við fátæka."

   "Þú vilt gefa allt, Þórdís", er mælt að séra Sigurður hafi eitt sinn sagt við konu sína er hún var að gefa fátækum.

   "Séra Sigurður var hár maður vexti, þrekinn vel og að öllu hinn karlmannlegasti, iðjumaður mikill. Hann var að vísu ekki sérlega fljótgáfaður eða bráðskarpur, sem menn kalla, en hafði einkar gott minni og greindargáfu og kunni yfir höfuð vel að nota gáfur sínar."

   Lengi framan af starfsárum sínum stundaði séra Sigurður sjóróðra á vorin. Fór hann þá heim um helgar til embættisgjörða. Var hann talinn ágætur sjómaður og aflasæll.

   Faðir Jóns kenndi honum allan skólalærdóm sem numinn skyldi í Bessastaðaskóla. Stúdentspróf tók hann svo í Reykjavík 1829 með afburðalofi. Verslunarstörf stundaði hann um skeið í höfuðstaðnum hjá Einari föðurbróður sínum. Þar kynntist hann frænku sinni, Ingibjörgu, dóttur Einars og felldu þau hugi saman.

   Hann gerðist svo skrifari hjá Steingrími biskupi Jónssyni í Laugarnesi í þrjú ár. Dvöl hans hjá honum hafði mikil áhrif á lífsstarf hans síðar. Jón sigldi svo til Kaupmannahafnar til náms við háskólann þar í málfræði, sögu, hagfræði og stjórnfræði, en lauk aldrei embættisprófi. Fljótlega eftir að hann kom til náms hlóðust á hann alls konar aukastörf, enda þurfti hann að sjá fyrir sér sjálfur fjárhagslega og íslensk þjóðmál tóku fljótlega hug hans allan.

   Í tólf ár kom hann ekki til Íslands og hafði konuefnið setið í festum allan þennan tíma. 1845 fór Jón heim til að sitja á hinu fyrsta endurreista Alþingi og þá gengu þau Ingibjörg í hjónaband í Dómkirkjunni í Reykjavík 4. september. Þá var hún 41 árs en hann 34 ára.

   Þau Ingibjörg bjuggu í Kaupmannahöfn allan sinn búskap og þaðan stjórnaði hann sjálfstæðisbaráttunni við Dani hátt í 40 ár. Á þeim tíma hafði enginn Íslendingur samband við jafn fjölmennan hóp landsmanna og má nefna að á söfnum landsins eru til yfir 6000 sendibréf til Jóns, sem hann varðveitti, frá um 870 bréfriturum.

   Lifibrauð sitt hafði hann af ýmsum vísindastörfum og vinnu við Árnasafn, þar sem hin fornu íslensku handrit voru varðveitt. Fræðistörf hans ein mega heita fullkomið ævistarf, enda kunni hann að skipuleggja störf sín.

   Jón var forseti Kaupmannahafnardeildar Bókmenntafélagsins og hlaut af því viðurnefnið forseti. Forseti íslenska lýðveldisins var hann aldrei af skiljanlegum ástæðum.

    Þá var hann potturinn og pannan í öllum störfum Alþingis allt frá endurreisn þess og til æviloka. Forseti Alþingis var hann alls á 10 þingum, eða lengur en nokkur annar fyrr og síðar. Það voru skoðanir Jóns Sigurðssonar sem mest mótuðu störf þingsins fyrstu áratugina og má segja að andi hans hafi svifið þar yfir vötnum allt til þessa dags.

   Jón sigldi 29 sinnum yfir Íslandsála á misjöfnum farkostum, m. a. til að stjórna fundum Alþingis. Oftast var eiginkonan með í för.

   Þekking Jóns Sigurðssonar á sögu og bókmenntum Íslendinga og ást hans á íslensku fólki, máli þess og menningu, auðveldaði honum að verða sá foringi sem hann varð. Hann var bardagamaður, einarður og ósérhlífinn, fylginn sér og harðsnúinn. En hann barðist hvorki með byssu né sverði heldur var orðsins brandur og söguleg rök helstu vopn hans.

   Ný félagsrit voru málgagn hans. Þar barðist hann fyrir stjórnfrelsi, kjörfrelsi, málfrelsi, verslunarfrelsi og atvinnufrelsi til handa Íslendingum og birti ótal hvatningargreinar til Íslendinga um hvaðeina sem verða mátti landinu til viðreisnar.

   Fullt löggjafarvald, aðskilinn fjárhagur, jafnrétti og innlend stjórn. Þetta var stefnuskrá Jóns Sigurðssonar og samherja hans í sjálfstæðisbaráttunni við Dani, sem hann birti í ritgerðinni Hugvekju til Íslendinga 1848.

   Á þjóðfundi 1851 ætluðu Danir að setja Íslendingum nýja stjórnskipun, þar sem lítið tillit var tekið til óska Íslendinga. Fundinum lauk með því að flestir fundarmenn risu úr sætum og sögðu: "Vér mótmælum allir."

   Á þjóðfundinum urðu tímamót á stjórnmálaferli Jóns Sigurðssonar. Eftir fundinn var enginn vafi á því hver var óumdeildur fyrirliði þjóðarinnar.

   Jón Sigurðsson taldi, að ætti líf og fjör að færast í Íslendinga, þyrftu þeir að vera fjár síns ráðandi og fá að versla við þá sem þeir vildu sjálfir. Öflug forysta hans hafði úrslitaáhrif á að verslun við Ísland var gefin öllum þjóðum frjáls 1. apríl 1855.

   Jón forseti var mjög vinsæll maður heima á Íslandi og má ætla að alls konar erindrekstur og endalaus fyrirgreiðsla fyrir landa hans í höfuðborginni, Kaupmannahöfn, hafi átt mikinn þátt í þeim vinsældum.

   Jón Guðmundsson, ritstjóri, var nánasti fylgismaður Jón Sigurðssonar í þjóðmálabaráttunni og sá sem mest mæddi á hér heima. Hann var kallaður "skuggi" Jóns Sigurðssonar. En fjöldi manna um allt land voru óhvikulir stuðningsmenn hans, bæði leynt og ljóst. Þetta voru menn úr öllum stéttum þjóðfélagsins: Bændur, prestar, vinnumenn, vinnukonur, verkamenn, búðarþjónar, embættismenn, húsfreyjur og námsmenn.

   Jón Sigurðsson taldi að frelsi án banda, án takmörkunar, væri ekki frelsi, heldur agaleysi og óstjórn.

   Hann var höfðingi í sjón og reynd, glæsilegur gáfumaður sem varð oft að sætta sig við þá reynslu brautryðjandans að falla en halda þó velli.

   Jón andaðist í Kaupmannahöfn 7. desember 1879 og Ingibjörg níu dögum síðar. Þau eru jarðsett í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Þau voru barnlaus, en Sigurður, sonur Margrétar á Steinanesi, ólst upp hjá þeim. Einn samtímamaður Jóns og Ingibjargar sagði um þau:

"Allir Íslendingar voru börn þeirra."

 

   "Það getur enginn gert sér grein fyrir því, hvernig nú væri ástatt um hag þjóðar vorrar, ef hún hefði ekki eignast Jón Sigurðsson, þegar mest lá við. Það verður ekki stungið svo skóflu i jarðveg og sögu íslenskrar viðreisnar að ekki komi niður á æfistörf Jóns Sigurðssonar. Jón Sigurðsson er ímynd Íslendingsins eins og hann getur verið mestur og bestur."

(Ásgeir Ásgeirsson forseti á Hrafnseyrarhátíð 17. júní 1961)

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31