A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
17.08.2015 - 11:27 | Hallgrímur Sveinsson

Hver var Eiríkur Þorsteinsson?

Eiríkur Þorsteinsson.
Eiríkur Þorsteinsson.

Eiríkur var Austfirðingur (16. febr. 1905 – 8. maí 1976). Foreldrar hans voru Þorsteinn Ólafsso, bóndi í Grófarseli og síðar bóndi  og ökumaður í Firði í Seyðisfirði og kona hans Guðrún Jónína Arngrímsdóttir. Hann ólst upp hjá móðurbróður sínum, Eiríki Arngrímssyni á Surtsstöðum í Jökulsárhlíð.

   Eftir nám í Gagnfræðaskóla Akureyrar og Samvinnuskólanum stundaði Eiríkur ýmis störf hjá SÍS og kaupfélögunum. Þar á meðal var hann kaupfélagsstjóri Kaupfélags Dýrfirðinga og framkvæmdastjóri útgerðarfélaga á staðnum frá 1932-1960. Alþingismaður V-Ís. 1952-1959. Eiginkona Eiríks var Anna Guðmundsdóttir frá Syðra-Lóni á Langanesi. Þau eignuðust 8 börn.

   Gefum nú Guðmundi Ingvarssyni orðið, en Anna var móðursystir hans:

  „Eiríkur var víkingur. Það sópaði af honum hvar sem hann fór. Til dæmis er hann gekk á götunni frá kaupfélaginu og heim til sín, með hatt á höfði, fór það ekkert á milli mála hjá mönnum er þeir mættu honum, að þar fóru þeir framhjá Eiríki Þorsteinssyni. Og hann tók ofan fyrir fólki. - Hann var harður samvinnumaður, en ég veit ekki hvað hann var í sjálfu sér harður flokksmaður. –Hann tvínónaði aldrei við neitt. Var yfirleitt snöggur til ákvarðana. – Hann var stórhuga og duglegur og fékk menn með sér. – Í eðli sínu var hann þannig, að hann vildi að menn hefðu frumkvæði. En hann fylgdist vel með öllu og vildi ráða. – Eiríkur átti lengi fé og var fjárglöggur maður. Og fyrstu árin sín hér hafði hann einnig kýr til heimilisnota.

   Jæja. Eitt sinn var það, að Andrés á Brekku var ekki sáttur við sláturdag hjá sér. Þá hugðist hann bara taka ráðin og velja sér dag sjálfur og rak fé sitt af stað. Einhvernveginn barst Eiríki njósn af þessu. Hann hafði náttúrlega engar vöflur á með það, snarast inn að Vegamótum og stóð þar fyrir fjárhópnum Andrésar vinar síns. Eiríkur var stór maður og handleggjalangur og það munaði nú um það þegar hann fór að baða út höndum og æpa á féð. Það var mjög létt verk hjá honum að snúa fénu við til heimahaganna.“ (Mannlíf og saga 1. hefti)

   Og svo fær Elís Kjaran orðið:

   „Eiríkur var ekki bara ofurhugi. Hann var eldhugi. Hann var oft að framkvæma hlutina, um leið og hann var að nefna þá. Það þurfti allt að gerast einn, tveir og þrír- Eftir að Eiríkur var orðinn fjáreigandi, sá hann um fóðrunina sjálfur og sinnti því að miklu leyti. Maður hafði gaman af að fylgjast með honum þegar hann var kominn í „overallsinn“ og var að göslast í fénu.-

   Eiríkur tók okkur ungu strákunum úr sveitinni afskaplega vel og ljúfmannlega. Hann var í forystusveit framsóknarmanna hér. Karl faðir minn var það nú líka. Hann var eitilharður framsóknarmaður og við auðvitað allir, strákarnir hans, í halarófu þar á eftir eins og gengur.  Það bar oft við að Eiríkur bauð okkur heim í kaffi. Og við vorum náttúrlega feimnir og lúpulegir, kannski, þegar við vorum komnir inn í þetta sallafína hús. Ég man eftir að einu sinni sagði hann við okkur:

    Strákar, verið þið nú ekki með neina mannasiði. Reynið þið nú bara að vera eins og heima hjá ykkur!“    (Mannlíf og saga 1. hefti)

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31