Hver ræktaði fyrstur manna kartöflur í Dýrafirði?
Þessa dagana eru útsæðiskartöflurnar í óða önn að spíra hjá áhugamönnum um kartöflurækt.
Og fer nú vel á að geta þess, að öðlingurinn Knútur Bjarnason á Kirkjubóli sagði undirrituðum hver hann teldi að fyrstur manna hefði ræktað kartöflur í Dýrafirði. Hann sagðist hafa heyrt að sá merki maður, Guðmundur læknir norðlenski, forfaðir þeirra smiðjumanna á Þingeyri, hefði þar staðið að verki. Hefur það líklega verið um eða uppúr 1855.
Guðmundur læknir Guðmundsson hinn norðlenski var einn merkasti maður í sögu Dýrafjarðar. Fór meðal annars til Hollands (Niðurlanda) þar sem hann dvaldi vetralangt í „vísindalegu augnamiði.“ Skal hann ekki þá hafa tekið með sér útsæði heim?
Sighvatur Grímsson Borgfirðingur segir meðal annars svo um Guðmund er hann kvaddi hann:
„Hann varð fyrir sömu örlögum og sumir Íslendingar hafa orðið fyrir, og það enda þjóðkunnir ágætismenn, að starfslaunin hafa verið fyrirlitning, í stað virðingar, og skortur og ill aðbúð í ellinni.“
Hallgrímur Sveinsson.