A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
07.03.2016 - 12:46 | Vestfirska forlagið,Byggðasafn Vestfjarða

Hvalreki

Mynd úr rekabálki Jónsbókar.
Mynd úr rekabálki Jónsbókar.
« 1 af 2 »

Hér fyrr á tíð þótti hvalreki sérstakt happ og í ísaárum bjargaði hann oft heilu sveitunum frá bjargarskorti og hungursneyð, sem tvímælalaust hefði oft orðið. Má eiginlega segja að hvalrekarnir hafi verið lífsbjörg þjóðarinnar fyrr á öldum þegar sultur og seyra sóttu að.  

Oft spunnust miklar deilur um hvalrekann, og jafnvel gekk það svo langt stundum að stórfelld mannvíg urðu vegna hans fyrr á öldum, þegar menn greindi á um eignarhald rekans.

Mesti hvalreki sem vitað er um á Íslandi var á Syðri Ánastöðum í Húnavatnssýslu vorið 1882. Þá fylltust allar víkur og vogar  af hafís, og urðu þá innlyksa á stað sem Sandvík heitir, 32 hvalir sem allir voru síðan drepnir og skornir af bændum þar í sveitinni.

Ef hval rak þar á fjöru sem almenningur var, mátti hver hirða af honum sem hann vildi, en ef hvalinn rak að  landi þar sem bóndi hafði eignarhald á var honum skipt eftir ýmsum reglum. Þeim sem fyrstur kom að rekanum  bar skylda til þess að festa hvalinn tryggilega þannig að hann tæki ekki út aftur og láta aðra síðan vita um fundinn svo fljótt sem verða mátti, ella verða beittur þungum sektum.

Ef skutlaðan hval rak á land með merktum skutli í,  fékk sá er fann hvalinn hluta af skotmannshlutnum. Sem dæmi var skotmannshlutur Arnfirðinga  hnefaalin útfrá blástursholu og inn í bein, jafnstórt stykki útfrá gotu og svo sporðblaðkan sjálf.

Hvalspikið var brætt og notað sem ljósmeti, einnig var það stundum saltað . Oft var hvallýsi blandað í smjör til að drýgja smjörið.  Sporðurinn og bægslin voru soðin og brytjuð niður og sett í súr. Hvalkjötið var borðað nýtt og einnig saltað, reykt eða súrsað. Hvaltennur og hvalskíði voru mjög eftirsótt smíðaefni, sérstaklega tennur úr búrhvölum  og náhvölum, og úr þeim mátti smíða ýmsa fagra muni. Hvalbein voru einnig  oft notuð sem burðarviðir í byggingum, enda beinin sum hver gríðarstór. Hvalleður var mikið notað til skógerðar og þóttu hvalskórnir mjög endingargóðir, væru þeir vel hirtir. Sjóskór sjómanna  voru stundum hafðir úr hvalleðri.

Hvalbeinsduft í vatni eða víni var talið flýta fyrir fæðingu hjá konum í barnsburði, og mulin hvalkvörn var talin góð lækning við þvagteppu. Við doða í kúm þótti gott ráð að láta hvalkvörn liggja í vatni um tíma og láta svo doðakúna drekka seyðið af kvörninni.

Kirkjan átti mikil ítök víða um land, og átti t.d. Vatnsfjarðarkirkja 15 hvalrekaítök á Hornströndum.  Eru þess mörg dæmi að umtalsverðar tekjur hafi komið í hlut kirkjunnar við hvalreka, og staðið undir viðgerðum og viðhaldi á þeim.​

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31