Búið um hvalbein til flutnings, Gísli Eiríksson hjá Vegagerðinni stjórnaði verki sem Sigmundur Þórðarson og hans menn frá Þingeyri önnuðust. Myndir: Sæmundur Þorvaldsson
Fyrra beinið laust og svífur um borð hjá Sigurlaugi Baldurs.
Gamla steypan stóð fyrir sínu og ekki nema rétt svo að dagurinn nægði til að brjóta niður tvo steypustöpla frá 1932 (?)
Valdimar bóndi í Varmadal flutti nýju beinin úr Hvalfirði vestur í Skrúð.
Föstudaginn 27. nóvember síðastliðinn voru gömlu hvalbeinin við Skrúð tekin niður og flutt til Bolungarvíkur til forvörslu hjá Náttúrugripasafni Vestfjarða. Beinin hafa staðið í Skrúð síðan 1928 en stóðu áður við bryggju hvalfangar á Höfðaodda (Framnesi) frá 1891. Hvalbeinin mynduðu hið fræga hvalbeinshlið niður á neðstu grasflötina í Skrúð. Þar sem þetta eru bein úr einni allra stæstu skepnu sem maðurinn hefur nokkru sinni af velli lagt þótti ekki verjandi að láta þau berjast veður og vind öllu lengur og hugsa menn sér að sýna þau innanhúss í framtíðinni en sýningarstaður er ekki ákveðinn ennþá. Menn höfðu talsverðar áhyggjur af því hvort beini þyldu þetta brambolt en verkið tókst áfallalaust og ekki annað að sjá en sá hluti beinanna sem var "innmúraður" í stöpla væri enn í góðu lagi en nokkuð mun styrkur þessara löngu beina vera farinn að minnka hið innra. Sveifluðust þau eins og grönn trjágrein þar sem þau svifu í bílkrana á leið á bílpall, enda orðin 118 ára + þeir áratugir sem skepnan (Steypireyður / Bláhveli - Balaenoptera musculus) hafði þá þegar svamlað um heimshöfin.
En Skrúður verður ekki beinalaus lengi því að sl.haust barst garðinum höfðingleg gjöf frá Hval hf. í Hafnarfirði: glæný hvalbein og nærri jafn löng þótt úr Langreyð séu (Balaenoptera physalus), enda Steypireyður alfriðuð tegund. Nýju beinunum verður komið fyrir í stað þeirra gömlu næsta vor.