A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
Gamla kaupfélagið á Þingeyri.
Gamla kaupfélagið á Þingeyri.
Nýlega barst Ísafjarðarbæ tilboð í húseignina Vallargötu 1 á Þingeyri, sem kallað er Gamla kaupfélagið eða Grams-verslun. Tilboðið er frá Hrafnhildi Skúladóttur á Þingeyri, en kaupverð kemur ekki fram. Málið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs á mánudag og þar upplýsti bæjarstjóri að áður hafi bænum borist tvö önnur tilboð í þetta hús. Hefur ekki verið unnið úr þeim ennþá vegna óska tilboðsgjafa um frestun málsins. Bæjarráð ákvað að láta skoða málið nánar, bæði fyrri tilboð og tilboð Hrafnhildar. Ákvörðun um sölu verður tekin í framhaldi af því.

Húsið er eitt af elstu húsum Þingeyrar, tvílyft timburhús með risi og var reist af Gramverslun árið 1874. Gramsverslun var aðalverslunin á Þingeyri frá 1867 og fram undir 1900. Verslunin var í eigu Níelsar C. Gram, sem var danskur. Rak hann jafnframt verslanir í Ólafsvík og Stykkishólmi. Bjó hann á Þingeyri á sumrin en hafði vetursetu í Kaupmannahöfn, rak skútuútgerð og saltfiskverkun, inn- og útflutning. Gram kaupmaður dó á Þingeyri í september 1898, þegar skera átti af honum stórutána vegna sykursýki. Þurfti mikið að hafa fyrir að svæfa hann vegna aðgerðarinnar, en þegar það loksins tókst, vaknaði hann ekki aftur. Verslunarhúsið komst síðar í eigu Kaupfélags Dýrfirðinga sem hafði þar verslun þar til nýtt verslunarhús Kaupfélagsins var reist um 1950. Þá var Gamla kaupfélagið fært yfir Vallargötu og húsinu snúið á hlið. Húsið hefur verið í eigu Ísafjarðarbæjar undanfarin ár og hugmyndir verið uppi um að færa það til svo það snúi framhliðinni að Hafnarstræti og höfninni, einsog það gerði í upphafi.

 

Hrafnhildur Skúladóttir hefur hug á að húsið verði nýtt fyrir ferðaþjónustu og ýmsa starfsemi henni tengdri svo sem listiðnað og veitingasölu. Ljóst er að húsið þarfnast mikils viðhalds og kostnaðarsamt verður að koma því nær upprunalegu horfi. Verði það gert mun það verða glæsilegur fulltrúi fyrir þann tíma þegar Þingeyri var skútubær og þjónaði bæði amerískum lúðuveiðimönnum og frönskum duggurum sem hingað sóttu.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31