23.04.2015 - 06:26 | Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason
Ketilseyrarbræður í smurningspásu. Frá vinstri Jón Reynir, Gunnar og Magnús. Þeir eru allir þjónar almennings á svæðinu og standa sig vel í því stykki. Ljósm.: H. S.
Gunnar kemur út úr nýja Paylodernum sínum, sjá Manníf og sögu, 18. hefti 2006. Það er enginn annar en Hemmi Gunn sem fagnar honum á bílastæðinu við íþróttamiðstöðina á Þingeyri, sem ekki var búið að malbika þá. Við þetta tækifæri sagði Hemmi að svona stórt tæki hefði aldrei komið út í Haukadal! Ljósm.: H. S.
Þrír góðir staddir í Hrafnholum undir Helgafelli. Gunnar er hér með frænda sínum Elísi Kjaran og Guðmundi Steinari Gunnarssyni, þáverandi rekstrarstjóra Vegagerðarinnar. Ljósm.: H. S.
Á síðasta vetrardag 2015. Horft fram Brekkudal úr svokallaðri Blautubeygju. Vetur konungur í öllu sínu veldi. Búið er að moka upp á Hrafnseyrarheiði. Ljósm.: H. S
Hrós vikunnar fær að þessu sinni Gunnar Gísli Sigurðsson, vinnuvélastjóri frá Ketilseyri. Hann hefur staðið í ströngu upp undir hálfa öld að þjóna okkur hér á miðhluta Vestfjarða. Snjómokstur og alls konar. Nefndu það bara. Endalaust.
Þessa dagana er hann á kafi við vormokstur á Hrafnseyrarheiði. Hvorki hann né hinir elstu menn muna annan eins snjó þar á köflum. Að vísu segja gárungarnir að þeir elstu muni nú yfirleitt aldrei neitt, en það er önnur saga.
Hallgrímur Sveinsson
Björn Ingi Bjarnason