Hrós dagsins
Alþjóðlegi hrósdagurinn er í dag, 1. mars.
Á vefsíðu alþjóðlega hrósdagsins segir að aðstandendur hans vilji að hann verði „jákvæðasti dagur heimsins.“ Deginum tengjast engin markaðsöfl – hrós kostar ekki neitt. „Allir geta verið með. Höfðað er til einnar af grunnþörfum mannsins, eðlisþarfar fyrir viðurkenningu.“ Svo segir á bb.is í dag.
Starfsfólk Landsbankans undanfarnar vikur í útibúinu á Þingeyri sem var, fær hrós dagsins hjá okkur. „Fjármagnseigendur“ í Dýrafirði eru eins og útspýtt hundsskinn að komast í afgreiðsu bankans á Þingeyri eina klukkustund í viku. Þar er oft þröng á þingi. Menn þurfa að leggja inn, taka út, borga reikninga, senda peninga út úr landinu og allskonar. Starfsfólkið er með afbrigðum lipurt og með góða þjónustulund. Það er ekki þeim að kenna að stundum verða menn að gjöra svo vel og bíða í hálftíma, þrjú korter.
Þar er við aðra að eiga sem vita hvað er þjóðhagslega hagkvæmt og hvar á að spara.