A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
29.07.2016 - 10:28 | bb.is,Vestfirska forlagið

Hlynur Þór og Ingibjörg hlutu viðurkenningar Reykhólahrepps

Hlynur Þór Magnússon.
Hlynur Þór Magnússon.

Hlynur Þór Magnússon sagnfræðingur og blaðamaður hlaut viðurkenningu Reykhólahrepps fyrir gott starf í þágu hreppsins undanfarin ár.

Hann hefur meðal annars séð um vef Reykhólahrepps frá vorinu 2008. Þar hefur hann, og gerir enn, skrifað fréttir og annan fróðleik af mikilli seiglu og óhætt að segja að hann skrifi bæði vandaðar og áhugaverðar fréttir enda hefur vefurinn verið einn sá öflugasti og mest sótti sveitarfélagsvefur landsins miðað við fólksfjölda.

Hann ætti að vera lesendum BB kunnugur en hann var fyrsti blaðamaður Bæjarins besta í fullu starfi, var ritstjóri Vestfirska fréttablaðsins í átta ár og síðar ritstjóri fréttavefjarins bb.is nokkur fyrstu árin. Hann kenndi við Menntaskólann á Ísafirði í liðlega tvo áratugi. Eftir að hann fór frá Ísafirði skrifaði hann mikinn fjölda opnuviðtala fyrir Bæjarins besta. Blaðamannsferil sinn byrjaði Hlynur á Morgunblaðinu á skólaárum tvítugur að aldri. 

Þá hlaut Ingibjörg Kristjánsdóttir viðurkenningu Reykhólahrepps fyrir ævistarf en hún er hjúkrunarkona og starfaði nánast alla tíð í Reykhólahreppi. Hún bjó lengi í Garpsdal við Gilsfjörð en býr nú í Króksfjarðarnesi. 

Viðurkenningarnar voru afhentar á Reykhóladögum, bæjarhátíð Reykhólahrepps sem fram fór um nýliðna helgi.

Bæjarins besta og bb.is sendir Hlyni hamingjuóskir með þessa verðskulduðu viðurkenningu en Hlynur var eins og áður sagði burðarás í rekstri okkar vestfirsku miðla um árabil og á umfram flesta aðra heiðurinn af vinsældum bb.is.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31