Hlýjasta árið í Stykkishólmi frá upphafi mælinga
Árið 2016 er hlýjasta árið frá upphafi mælinga í Stykkishólmi en saga samfelldra veðurathugana í Stykkishólmi nær 171 ár aftur í tímann eða til haustsins 1845.
Á tímabili samfelldra mælinga má draga sögu hitafars í Stykkishólmi (og líklega landinu öllu) saman á eftirfarandi hátt:
Veðurfar var kalt á síðari hluta 19. aldar og ekki tók að hlýna verulega fyrr en á 3. áratug 20. aldar. Hlýindakaflanum lauk á 7. áratugnum en þá tók við kuldaskeið fram undir lok aldarinnar. Síðan þá hefur hlýnað og eru síðustu ár með þeim hlýjustu frá því mælingar hófust og síðasta ár það allra hlýjasta. Útjafnaði ferillinn sýnir að nú lætur nærri að meðalhiti yfir u.þ.b. áratug sé um 2,5 °C hærri hér á landi en þegar kaldast var á síðari helmingi 19. aldar. Þetta kemur fram í pistli sem Halldór Björnsson, hópstjóri loftslagsrannsókna, og Trausti Jónsson, sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum, hafa ritað á vef Veðurstofu Íslands.
Á hnattræna vísu var árið 2016 einnig hlýjasta ár síðan farið var að mæla hita nægilega víða til þess að leggja megi traust mat á meðalhita jarðar.
Myndin sýnir samanburð á þróun hita í Stykkishólmi og á hnattræna vísu. Augljóslega eru sveiflurnar í Stykkishólmi miklu meiri, en til lengri tíma er hallinn á röðunum svipaður.
Á hnattræna vísu hefur hlýnunin 1880–2016 verið að jafnaði um 0,7 °C á öld (sem samsvarar um 1°C hlýnun yfir tímabilið 1880 til 2016). Þetta er lægri tala en fyrir Stykkishólm á sama tímabili, en mynd 1 sýnir að upphafsárið 1880 fellur á kaldasta tímabil þar síðan mælingar hófust og því kann þetta að vera óheppilegt upphafsár til að miða við. Ef upphafsárið er fært aftur um 20 ár er hlýnunin 0,9 °C á öld, sem er aðeins meira en hnattræn hlýnun á sama tímabili.
Hér er hægt að lesa pistilinn í heild
Morgunblaðið