Hlaupið, synt og hjólað fyrir vestan á helginni
Íslandsmót í maraþonfjallahjólreiðum - Sjósund og þríþraut - Hlaupalengdir frá 2 km til 55 km - Hátíð í bæ
Líf og fjör á Þingeyri og Ísafirði
Sigmundur Fríðar Þórðarson er einn af forsprökkum Vesturgötuhlaupsins. Hann segir skemmtilega stemningu myndast í kringum Hlaupahátíðina. Það er skemmtilegt hvernig allt þorpið tekur þátt í þessu. Það eru íþróttafélagið Höfrungar, Riddarar Rósu og fleiri aðilar sem ber hitann og þungan af skipulaginu.
„Það er ótrúlegt að sjá fljótustu hjólreiðamennina koma í mark á laugardeginum á rúmum 2 klst. Að meðaltali tekur það 3 til 4 klst. að klára 55 km,“ segir Sigmundur.
Fjallahjólreiðakapparnir hjóla upp Kirkjubólsdal, yfir Álftamýrarheiði, niður Fossdal, út með Arnarfirði, fyrir Nes, inn með Dýrafirði og aftur til Þingeyrar að sögn Sigmundar. Hann segir líf og fjör á Þingeyri á laugardeginum.
„Það er verið að baka vöfflur og taka á móti keppendum. Útijóga er í boði fyrir þá sem slíkt vilja og allt iðar af lífi í sundlauginni. Það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi frá 55 km fjallahjólreiðum til 2 km skemmtiskokks."
Sigmundur segir yfir 300 manns hafi tekið þátt í keppnum laugardagsins á síðasta ári og á fjórða hundrað sem tóku þátt í atburðum dagsins. Vesturgötuhlaupið á sunnudeginum býður upp á 10, 24 og 45 km hlaup. Nú eru hátt í 100 keppendur skráðir í 24 km hlaupið.
„Það er fjöldinn allur af fólki sem þarf til þess að allt gangi upp. Brautarverðir, veitingafólk skipuleggjendur, rútubílstjórar sem keyra yfir 100 keppendur yfir í Stapadal í Arnarfirði þar sem 24 km hlaupið hefst og fleira, “ segir Sigmundur sem bendir á að hlaupahátíðin hafi góð áhrif á ferða- þjónustu á Vestfjörðum. Stærri helgi en Dýrafjarðardaga.
„Allt sumarið sjáum við hlaupara og hjólreiðafólk koma, skoða og æfa sig. Það má segja að við séum í útivistarferðamennsku,“ segir Sigmundur og bætir við að frægustu hjólreiðarmenn landsins segi hjólaleiðina þá flottustu á landinu.
Dagskráin:
Föstudagur -14. júlí 2017
16.00 Sjósund 1.500 metrar
16.00 Sjósund 500 metrar
20.00 Arnarneshlaup 21 km
20.30 Arnarneshlaup 10 km
22.00 Silfurtorg, verðlaun afhent
Laugardagur - 15. júlí 2017
10.00 Fjallahjólreiðar 55 km
10.15 Skemmtihjólreiðar 8 km
11.30 Skemtiskokk á Þingeyri 2 km og 4 km, útijóga, vöfflubakstur og fleira skemmtilegt við sundlaugina á Þingeyri
Sunnudagur - 16. júlí 2017
08.00 Tvöföld Vesturgata 45 km
11.00 Heil Vesturgata 24 km
12.45 Hálf Vesturgata 10 km Keppni í þríþraut felur í sér 500 metra sjósund, 55 km Vesturgötuhjólreiðar og 24 km Vesturgötuhlaup
Morgunbblaðið miðvikudaginn 12. júlí 2017.