Hlaupahátíðin fer fram um næstu helgi
Næstkomandi helgi,
eða dagana 19.-21.júlí, fer hin árlega Hlaupahátíð á Vestfjörðum fram. Hátíðarhöld
verða með svipuðu sniði og fyrri ár en hlaupahátíðin er nú haldin í fimmta
sinn. Föstudaginn 19.júlí verður keppt í sjósundi við Neðstakaupstað á Ísafirði
og um kvöldið verður keppt í Óshlíðarhlaupinu. Á laugardeginum fer fram fjallahjólreiðakeppni
í Dýrafirði þar sem hjóluð er 55 km leið um skagann milli Arnarfjarðar og
Dýrafjarðar, og skemmtiskokk á Þingeyri þar sem hægt er að velja um
tvær vegalengdir. Þá verður einnig boðið upp á útijóga við íþróttamiðstöðina á
Þingeyri að keppni lokinni. Hátíðinni lýkur á sunnudag með Vesturgötuhlaupi þar
sem keppt er í þremur vegalengdum.
Að sögn Sigmunds Þórðarsonar, formanns
íþróttafélagsins Höfrungs og eins aðstandanda hlaupahátíðarinnar, er búist við
met þátttöku í hjólreiðakeppninni í ár. Hann auglýsir eftir sjálfboðaliðum til
að aðstoða við hátíðina, og þá sérstaklega á laugardag og sunnudag þar sem
hátíðin fer fram í Dýrafirði. Áhugasamir geta haft samband við Sigmund í síma
863-4235. Hann hvetur jafnframt Dýrfirðinga og nærsveitarmenn til að taka þátt
í hátíðinni, skemmtiskokkið hentar til dæmis allri fjölskyldunni. Frekari
upplýsingar um hátíðina og einstaka viðburði er að finna á Facebook síðu
hátíðarinnar (Hlaupahátíð á Vestfjörðum) og á heimasíðunni www.hlaupahatid.is.