26 manns hlupu 45 kílómetra „tvöfalda Vesturgötu,“ þá var 81 einn sem lauk 24 kílómetra Vesturgötu og 26 luku keppni í 10 kílómetra „hálfri“ Vesturgötu.
Fyrstur í mark í tvöfaldri Vesturgötu, leið sem liggur úr Dýrafirði yfir í Arnarfjörð yfir Álftamýrarheiði þar sem hæsti hluti hennar er í 544 metra hæð, var Kári Steinn Karlsson ólympíufari, á 2 klukkustundum og 54 mínútum. Annar var Þorbergur Jónsson, utanvegahlaupari með meiru, á 2 klukkustundum og 58 mínútum.
Í kvennaflokki sigraði Sonja Sif Sigurðardóttir á 4 klukkustundum og 35 mínútum. Í Vesturgötu var fyrstur 17 ára Mathew Walker á einni klukkustund og 41 mínútu og fyrst kvenna var Rannveig Oddsdóttir á einni klukkustund og 44 mínútum. Heildarúrslit má finna á timataka.net.
Vesturgatan er ekki þjóðvegur heldur einstaklingsframtak Elísar Kjaran Friðfinnssonar, ýtustjóra, sem ruddi veginn til að tengja Lokinhamradal vil þjóðvegi landsins, fyrst í Dýrafjörð og svo í Arnarfjörð. Vegurinn er vinsæll meðal ferðamanna. Hann er mjög dramatískur á köflum með yfirslútandi bergi og bröttum hlíðum.
Blíðaskaparveður var á hlaupaleiðinni í dag og hlaupið gekk áfallalaust.