Hjólabókin um Vesturland er komin út hjá Vestfirska forlaginu
Hjólabókin um Vesturland er nú loksins komin út hjá Vestfirska forlaginu, en hennar hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu af hjólreiðafólki og fleirum. Búið er að dreifa bókinni um allt land. Í fyrstu Hjólabókinni var fjallað um Vestfirði. Það var tímamótaverk. Nú fjallar Ómar Smári um Vesturland á sama hátt og síðan koma aðrir landshlutar í fyllingu tímans. Þetta eru bækur sem henta öllum sem ferðast um landið, hvort sem þeir eru hjólandi, gangandi eða akandi. Vandaður leiðarvísir sem á sér enga hliðstæðu hér á landi.
Höfundur segir: „Það er hollt og skemmtilegt að hjóla. Ísland er yndislegur staður til að ferðast um á reiðhjóli. Hér er lýst 20 hjólreiðaleiðum á Vesturlandi, sem eiga það sameiginlegt að þær liggja í hring og að hægt er að loka hringnum á einum degi. Nauðsynlegar upplýsingar um hverja leið eru sýndar með auðskildum litaskala sem útskýrir hve brattinn er mikill. Fjöldi ljósmynda freistar fólks til að heimsækja Vesturland. Fróðleiksmolar um land og þjóð fylgja hverjum kafla.“