07.06.2011 - 21:53 | bb.is
Margir munu leggja leið sína til Hrafnseyrar að fagna þjóðhátíðardeginum á fæðingarstað Jóns Sigurðssonar.
Hátíðardagskrá verður á Hrafnseyri við Arnarfjörð 17. júní en þá verða 200 ár liðin frá fæðingu frelsishetjunnar Jóns Sigurðssonar. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra setur hátíðina kl. 14 og þá mun Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands flytja hátíðarræðu. Hátíðarsvæðið verður hins vegar opnað kl. 10 um morguninn og geta gestir gengið milli sölubása og veitingatjalda. Kl. 12.30 leggja Bílddælingar úr höfn á Bíldudal í hópsiglingu á smábátum yfir Arnarfjörðinn. Áætlað er að siglingin taki um klukkustund. Sr. Agnes M. Sigurðardóttir, sóknarprestur í Bolungarvík og prófastur í Vestfjarðaprófastsdæmi, predikar í hátíðarmessu í Minningarkapellu Jóns Sigurðssonar.
Fjölmargir viðburðir eru á hátíðardagskránni á útisviði. M.a. mun Elvar Logi Hannesson leikari flytja brot úr einleik um Jón Sigurðsson. Sigrún Hjálmtýsdóttir og Björgvin Halldórsson eru meðal þeirra tónlistarmanna sem stíga munu á svið. Hátíðarsvæðið og safnið verða opin til kl. 20 um kvöldið.