Hátíð hafsins 2013
Fjölbreytt dagskrá fyrir alla fjölskylduna
Helgina 1. – 2. júní er Sjómannadeginum fagnað í Reykjavík og menningu hafsins gert hátt undir höfði með fjölbreyttum hætti. Hátíðarhöld fara fram á Granda og teygja sig yfir á Ægisgarð. Tónlistaratriði, dorgveiði, listasmiðjur, sjóræningjasiglingar, bryggjusprell, furðufiskasýning og margt fleira verður í boði fyrir alla fjölskylduna.
TÍMAMÓTUM FAGNAÐ – 100 ÁRA OG 75 ÁRA
Þeir sem standa að hátíðinni eru Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð. Báðir þessir aðilar fagna stórum tímamótum í ár en þá eru liðin 100 ár frá því framkvæmdir við Reykjavíkurhöfn hófust og þann 2. júní verður haldið upp á 75. ára afmæli Sjómannadagsins.
Fyrstu hátíðahöld Sjómannadagsins fóru fram í Reykjavík og á Ísafirði árið 1938. Síðar voru hátíðahöld Sjómannadagsins tekin upp í flestum sjávarplássum.