Harmonikukarlarnir og Lóa: - Síðasta æfing vetrarins var á þriðjudagskvöld
Menningin vex í lundi nýrra skóga. Svo kvað Hannes Hafstein. En það er merkilegt með þessa blessuðu menningu hérna fyrir vestan. Eftir því sem Vestfirðingum fækkar, þess meiri menning. Sjáið Dýrafjörð til dæmis. Þar er mikið af lundum nýrra skóga. Þar hefur fólki fækkað og fækkað. En menningin er samt sem áður ótrúlega fjölbreytt.
Harmonikukarlarnir og Lóa er eitt af þessum menningarfyrirbærum í firðinum fagra. Það er ekkert annað en 10 manna harmonikuband með söngvara. Hljómsveitin sú æfir að jafnaði einu sinni í viku í flugstöðinni við Þingeyrarflugvöll. Er það eina starfsemin sem nú fer fram í því húsi. Dírigent hljómsveitarinnar er Guðmundur Ingvarsson, póstmeistari og hefur verið það frá upphafi hljómsveitarinnar fyrir mörgum árum.
Hljómsveitin hefur æft þó nokkurn slatta af harmonikulögum í gegnum tíðina og kemur þeim fátt á óvart í þeim efnum. Ekki vitum við um neina aðra svona Big band harmonikuhljómsveit hér fyrir vestan. Ekki er vafi á því að það gefur meðlimum hljómsveitarinnar mikið í aðra hönd að hittast og taka lagið einu sinni í viku. Meðf. myndir tókum við á síðustu æfingu Harmonikukarlanna og Lóu 3. maí. Tveir meðlimir, þeir Gunnar Gísli Sigurðsson og Kristján Gunnarsson, voru forfallaðir.
Þess skal að lokum getið, að Harmonikudagurinn verður haldinn í Félagsheimilinu á Þingeyri n. k. sunnudag, 8. maí 2016, og hefst kl. 4 e. h.