A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
05.07.2011 - 16:08 | JÓH

Handverkssumarbúðir á Þingeyri

Þjóðbúningakynning á vegum Þjóðbúningafélags Vestfjarðar var í gærkvöldi. Myndir: Halldór Bragason.
Þjóðbúningakynning á vegum Þjóðbúningafélags Vestfjarðar var í gærkvöldi. Myndir: Halldór Bragason.
« 1 af 3 »
Nú standa yfir Norrænar handverkssumarbúðir á Þingeyri á vegum Heimilisiðnaðarfélags Íslands og Þjóðbúningafélags Ísafjarðar. Þetta eru fjölskyldusumarbúðir þar sem boðið er upp á námskeið í handverki fyrir alla aldurshópa. Áætlað er að um 100 manns víðs vegar af Norðurlöndunum séu í Dýrafirði og er fullbókað á flest námskeiðin. Dagskrá handverkssumarbúðanna er ansi viðamikil en meðal annars er hægt að sækja námskeið í jurtalitun, vattasaum, útskurði, eldsmíði og íslenskri matargerð, svo fátt eitt sé nefnt.

Svala Norðdahl, ein af nefndarmönnum Norrænu handverkssumarbúðanna, segir að reynt hafi verið að nýta sem mest úr byggðarlaginu, bæði kunnáttu og hráefni. Því séu flestir kennarar úr byggðarfélaginu og unnið sé með efni eins og roð, ull og ýsubein.

 

Auk námskeiðanna er þátttakendum boðið upp á fyrirlestra, sýningar, dagsferð um Arnarfjörð og kvöldvökur. Á kvöldvökunni í kvöld verður Bernd Ogrodni frá Brúðuheimum í Borgarnesi með brúðuleiksýningu, og á fimmtudagskvöldið verður kynning á prjónaforritinu Prjónamunstur og Jón Sigurðsson mun spila á langsspil. Báðar kvöldvökurnar hefjast kl. 20:00 í Félagsheimilinu á Þingeyri og eru allir velkomnir (aðgangseyrir á brúðuleikhúsið er seldur við innganginn).

 

Síðasti dagur handverkssumarbúðanna er á föstudag og fram að þeim tíma verður handverksmarkaður opinn í gamla sláturhúsinu á Þingeyri. Markaðurinn er öllum opinn og er fólk hvatt til að kíkja við og skoða handverkið. Afrakstur handverkssumarbúðanna verður svo sýndur seinni part föstudagsins í Félagsheimilinu.

 

Svala Norðdahl, Soffía Magnúsdóttir, Margrét Skúladóttir og Hrafnhildur Hafberg, sem skipa Norrænu nefndina, vilja koma á framfæri kæru þakklæti íbúa Þingeyrar fyrir mótttökurnar, sem þær segja að hafi verið alveg dásamlegar.

 

Hægt er að sjá dagskrá og nánari upplýsingar á vef Heimilisiðnaðarfélags Íslands.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31