Hallgrímur Sveinsson er 75 ára í dag - 28. júní 2015
Léttadrengurinn, Hallgrímur Sveinsson á Brekku í Dýrafirði, er 75 ára í dag, 28. júní 2015.
Hallgrímur Sveinsson er f.v. kennari og skólastjóri á Þingeyri og einnig Hrafnseyri.
Hallgrímur Sveinsson var í áratugi staðarhaldari á Hrafnseyri við Arnarfjörð og hefur flestum öðrum mönnum fremur á síðari áratugum haldið nafni Jóns Sigurðssonar forseta, sögu hans og arfleifð á lofti. Hann og eiginkona hans, Guðrún Steinþórsdóttir, bjuggu á Hrafnseyri í rúm 40 ár, ráku þar fjárbúskap og sáu um vörslu og umhirðu staðarins fyrir hönd Hrafnseyrarnefndar.
Undir nafni Vestfirska forlagsins hefur Hallgrímur í um tuttugu ára skeið gefið út fjölda bóka, sem langflestar eru helgaðar vestfirsku efni með einum eða öðrum hætti.
Vestfirska forlagið hefur á síðari árum gefið út allt upp í tuttugu og þrjá titla á ári og er heildarfjöldi titla samtals um 300.
Útgáfustarfið í þágu vestfirskra fræða og vestfirskra málefna er og hefur verið brennandi áhugamál Hallgríms en ekki gróðavegur.
Björn Ingi Bjarnason