Haldið til haga: - Grjótaðu vel á þær!
Nú eru smalamennskur framundan á útnesjum og inn til dala í Vestfirksu Ölpunum. Er því rétt að rifja upp eftirfarandi ráðleggingu.
Sigurjón G. Jónasson í Lokinhömrum hafði fengið til sín stórsmala að vanda eitt haustið. Meðal þeirra var Sigurjón nafni hans Hákon Kristjánsson, ættaður úr Miðbæ í Haukadal. Var Konni með efstu mönnum sem smöluðu út Lokinhamrahlíðar. En það er sem kunnugt er ekki heiglum hent að ganga ofarlega í fjöllum hér um slóðir. Lokinhamrabóndinn tók svo til orða við hann áður en lagt var upp:
„Grjótaðu vel á þær. Það er nóg andskotans grjótið í fjallinu!“
Sigurjón Hákon smali lét sér það að kenningu verða. Ruddi hann svoleiðis grjótinu úr fjallinu á úteftirleið með miklum eldglæringum. Höfðu menn sjaldan séð eins vel „grjótað“ á þeim slóðum.
Þetta minnir nokkuð á það er nafni hans Hákon J. Sturluson á Hjallkárseyri smalaði Ufsirnar í gamla daga inni í Borgarfirði og „grjótaði“ vel.
Verður kannski sagt frá því síðar.