A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
14.01.2017 - 08:43 | Vestfirska forlagið,Leifur Reynisson,Blaðið - Vestfirðir,Björn Ingi Bjarnason

Haldið til Hvanneyrar

Jón Mósesson.
Jón Mósesson.
« 1 af 4 »

Hann var gæddur fjölhæfum gáfum, listrænn og nokkuð skapmikill en stillti alltaf í hóf. Öll léttúð var fjarri skapi hans en hann átti gott skopskyn og var góður sögumaður. Hann var mikill náttúruskoðari. Hvað útlitið snerti var hann í hærra lagi meðalmaður á vöxt, þreklega vaxinn. Andlitið dálítið stórskorið en sviphreint og karlmannalegt. Allur var hann mjög traustvekjandi, nokkuð seintekinn, en alúðlegur og skemmtilegur í viðmóti enda hinn besti samstarfsmaður og skólafélagi. Tryggari vin hef ég aldrei átt.“ Svo segir í eftirmælum sem Ingimar Jóhannesson frá Meira-Garði í Dýrafirði skrifaði um æskuvin sinn, Jón Mósesson, en ég hef nokkuð fjallað um fjölskyldu þess síðarnefnda að undanförnu.

Jón fæddist á Arnarnesi við Dýrafjörð árið 1888. Foreldrum hans, þeim Kristínu Bjarnadóttur og Móses Jónssyni, hafði láðst að ganga í hjónaband áður en frumburðurinn leit dagsins ljós og því var getnaðurinn skráður sem „þeirra fyrsta brot“ í kirkjubók þar sem fæðingin var tíunduð. Nokkur ár liðu þar til þau fengu kirkjulega vígslu en skýringin kann að liggja í bágum kjörum enda komst fólk ekki upp með að stofna til hjónabands í gamla bændasamfélaginu nema efnahagurinn þætti nógu traustur. Vinnufólk hafði fyrir vikið ekki rétt á að koma sér upp fjölskyldu enda bjó það almennt við sultarlaun. Staða Kristínar og Móses var ívið betri þar sem Kristín átti eignarhlut í Arnarnesjörðinni sem gerði þeim kleift að búa út af fyrir sig þó þau hefðu ekkert jarðnæði. Móses bar björg í bú með sjómennsku auk þess sem þau áttu nokkrar skjátur til eigin þarfa.

Jón þurfti snemma að leggja sitt til heimilisins eins og tíðkaðist í þá daga. Hann var vart af barnsaldri þegar hann fylgdi í fótspor föður síns, fyrst á árabátum en síðar á þilskipum. Lífið til sjós var harðneskjulegt og háskalegt enda slitnuðu menn snemma á stritinu og skipskaðar voru tíðir. Jón átti sér þann draum að finna lífi sínu annan farveg enda var farið að greiðast um aðrar leiðir. Nútímalegir samfélagshættir gerðu vart við sig með auknu þéttbýli, fleiri menntunarmöguleikum og fjölbreyttara atvinnulífi.

Jón gekk í Núpsskóla við stofnun hans árið 1906 og var hann þar við nám fram til 1908. Námsárið var stutt í þá daga en alls var hann við skólann í 8 mánuði. Þar fékk hann þá undirstöðu sem dugði til frekari skólagöngu en hann var ráðinn í að næla sér í starfsréttindi. Jón tók einnig þátt í félagslífi héraðsins sem fór einkum fram innan Ungmennafélags Mýrahrepps og stúkunnar Gyðu en þau félög voru hluti af þeirri miklu vakningu sem varð á menningarlífi landsmanna í kringum aldamótin 1900. Er óhætt að segja að hann hafi verið af fyrstu kynslóð Íslendinga sem fékk tækifæri til að velja sér aðra lífsbraut en foreldrarnir. Þau Kristín og Móses höfðu ekki átt aðra kosti en að semja sig að lífsháttum bændasamfélagsins samkvæmt aldagamalli hefð.

Eftir að hafa gaumgæft kostina vel afréð Jón að fara í Bændaskólann á Hvanneyri hvar hann var við nám frá 1910 til 1912. Þar átti hann góða vist og hvatti hann Ingimar vin sinn mjög til að setjast þar á skólabekk og urðu þeir samskóla veturinn 1911 til 1912. Ég gríp nú aftur niður í eftirmæli Ingimars en þar kemur vel fram hversu mikilvægur Núpsskóli var fyrir þá sem vildu hleypa heimdraganum og ganga menntaveginn: „Þar fór sem fyrr á Núpi að við Nonni hugsuðum mest um námið og nú gat hann leiðbeint mér í fyrstu á brautinni þar sem hann var búinn að vera í yngri deild áður. En langerfiðust var byrjunin. Rétt er að það komi hér fram þeir örðugleikar okkar skólasveina á Hvanneyri að því nær allar námsbækurnar voru á norsku eða dönsku og sumir okkar höfðu enga, alls enga, kunnáttu í þeim málum. En við sem höfðum verið í unglinga- eða gagnfræðaskólum stóðum þar betur að vígi. En málum var bjargað á þann hátt að nemendur sem voru fljótir að skrifa voru valdir til þess að skrifa aðalatriðin úr fyrirlestrum kennarans jafnóðum og þau voru flutt því að kennslan fór mest fram í fyrirlestrum. Jón var einn þeirra sem skrifaði upp í tímum fyrir sína deild. Svo var þetta allt “hektograferað” og hver nemandi fékk eitt eintak til lesturs. En þeir sem þetta tóku að sér máttu svo fara til kennaranna og spyrja um efnið.“

Þeir sem luku námi við Bændaskólann urðu oft þarfir og málsmetandi menn í sinni sveit þar sem menntun þeirra nýttist við að færa búskaparhætti í nútímalegra horf. Heimildir eru fyrir því að Jón hafi haft hug á að snúa aftur en það bíður næsta blaðs að gera grein fyrir hvers vegna það mátti ekki verða.

 

Leifur REynisson 

sagnfræðingur

 

Blaðið Vestfirðir 12. janúar 2017

 

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31