A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
23.08.2015 - 22:08 | Sæmundur Þorvaldsson,Pétur Halldórsson

Hagaskógar - Kúm beitt á skóg í Dýrafirði til reynslu

Kýrnar á Höfða í Dýrafirði eru þessa dagana á beit í skógi í tilraunaskyni. Á Höfða er meiningin að allt skógræktar- og uppgræðsluland verði nýtt til beitar í fyllingu tímans. Ljósm.: Sæmundur Þorvaldsson.
Kýrnar á Höfða í Dýrafirði eru þessa dagana á beit í skógi í tilraunaskyni. Á Höfða er meiningin að allt skógræktar- og uppgræðsluland verði nýtt til beitar í fyllingu tímans. Ljósm.: Sæmundur Þorvaldsson.
« 1 af 3 »

Á nýafstöðnum aðalfundi Skógræktarfélags Íslands ræddi Þórarinn Ingi Pétursson, formaður Landssambands sauðfjárbænda, um hvort saman færi skógrækt og sauðfjárrækt. Niðurstaða hans var sú að þetta gæti vel farið saman og gerði það víða nú þegar, þar sem sjálfbær beit birkiskóglendis væri stunduð. Þórarinn nefndi öflugt landbótastarf bændanna á Daðastöðum í Öxarfirði sem dæmi en minntist einnig á að birkið væri í sókn á heimaslóðum hans í Grýtubakkahreppi þrátt fyrir beit.

Þegar rætt er um beit og skógrækt eða aðra landgræðslu hitnar gjarnan í kolunum því sitt sýnist hverjum. Á öðrum vængnum er rætt um að banna þurfi lausagöngu búfjár, skylda fjáreigendur til að halda fé sitt í afgirtum hólfum og herða á beitarstýringu. Þá heyrist úr hinni áttinni að þetta sé ekki hægt, ofbeit sé ekki lengur vandamál og bændur stundi öflugt landbótastarf. Skógræktarfólk bendir gjarnan á að óréttlátt sé að það þurfi að kosta til girðinga vegna fjár sem aðrir eigi en sauðfjárbændur benda á hefðir og reglur. Beit sé jafnframt erfitt að stýra meðan lausaganga er leyfð. Á þessum nótum er umræðan gjarnan í járnum.

Þessi öndverðu sjónarmið ættu þó ekki að þurfa að hindra samræðu og samstarf sauðfjárræktar og skógræktar, til dæmis um ræktun skóga til beitar á Íslandi. Í bókinni Skógarauðlindin, sem kom út árið 2013 á vegum Kraftmeiri skóga, er kafli eftir Sæmund Kr. Þorvaldsson, framkvæmdastjóra Skjólskóga á Vestfjörðum. Greinin heitir Hagaskógar. Hugtakið hagaskógar er haft um það sem einnig er stundum kallað beitarskógar og er ein tegund búskapar- eða landbúnaðarskóga þar sem bæði er lögð áhersla á gæði beitilands og framleiðslu verðmæts trjáviðar. Á erlendum tungumálum er talað um silvopasture og agroforestry í þessu sambandi.

 

Friðun í upphafi mikilvæg og beitarstýring í kjölfarið

Með sérhæfingu landbúnaðar og aðgreiningu búgreina hefur dregið úr nýtingu skóga til beitar víða um heim en nú er í auknum mæli horft til þess á ný að blanda saman skógrækt og öðrum búgreinum, meðal annars með því að beita búpeningi á skóga. Fram kemur í skrifum Sæmundar að uppskera beitargrasa verði „til muna meiri í vel heppnuðum hagaskógi en á berangri, einkum vegna skjóláhrifa trjágróðurs og þeirra áhrifa sem djúpstætt rótarkerfi trjánna hefur á vatnsbúskap, hringrás næringarefna og þar með jarðvegsgerð“ (Skógarauðlindin bls. 116). Hagaskógur geti því borið þyngri beit en skóglaust land. Ær með lömbum þurfi 2-3 hektara til sumarbeitar í venjulegum högum en reikna megi með að talsvert minna þurfi í góðum hagaskógi.

Ekki er það þó svo að nóg sé að gróðursetja tré og byrja strax að beita „skóginn“. Í hagaskógum er beitarstýring mjög mikilvæg og beit getur ekki hafist fyrr en skógurinn er stálpaður. Sæmundur telur að hlífa verði skóginum í allt að 15-25 ár áður en beitt sé á hann. Miklu máli skipti líka að velja þær trjátegundir sem henti best. Jafnvel þótt birki geti vaxið víðast hvar geti verið betra að velja t.d. lerki sem vaxi hraðar og hafi trúlega meiri jákvæð áhrif á jarðveg og þar með beitargróður.

Sjö bændur vestra rækta hagaskóga

Hjá Skjólskógum er bændum markvisst bent á hagaskóga sem vænlega leið til skógræktar og þessa dagana er fyrsti hagaskógabóndinn vestra, Sighvatur Jón Þórarinsson á Höfða í Dýrafirði, að gera tilraunir með að beita kúm sínum á 13-15 ára lerkiskóg. Á fjórða degi fóru kýrnar að hætta sér nokkuð inn í skóginn og hafa enn sem komið er ekki snert neitt til tjóns annað en það sem reiknað var með, alaskavíði og selju. Sighvatur gerir ráð fyrir að þessi beitartilraun standi í fáeinar vikur en hugað verði að því að beita skóginn lengur á komandi sumrum ef vel gengur. Sighvatur hefur stundað öfluga landgræðslu og ræktað hagaskóg frá árinu 1997. Undir það hefur hann lagt rúma 300 hektara lands og stefnir að því að beita það allt í fyllingu tímans.

Af þeim 56 bændum sem gert hafa samning við Skjólskóga eru 7 með samninga þar sem gert er ráð fyrir hagaskógum að miklu eða öllu leyti. Hagaskógar ná yfir 535 ha af um 3.000 hekturum sem samningar Skjólskóga ná til. Það þýðir að hagaskógar eru 17% af þeim skógum sem ræktaðir eru á Vestfjarðakjálkanum með stuðningi Skjólskóga.

Friða verður skóginn í upphafi

Í erindi sínu á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands ræddi Þórarinn Ingi Pétursson um birkiskóga sérstaklega. Þegar rætt er um birkið verður að hafa í huga að tegundin vex hægt og er mjög viðkvæm fyrir beit í uppvextinum. Beit getur auðveldlega komið í veg fyrir að birkitré vaxi úr grasi og að eldri birkiskógur endurnýist. Í vor var gerð úttekt á skógi sem gróðursett var í árið 2000 á Skriðnafelli á Barðaströnd, svokölluðum Þúsaldarskógi Skógræktarfélags Íslands. Skógur þessi hefur aldrei verið girtur af þótt það hafi verið meiningin í upphafi. Þess vegna hefur hann verið óvarinn alla tíð og allmargt sauðfé verið þar á beit á hverju sumri.

Aðallega voru settar niður þrjár trjátegundir í þennan skóg á Skriðnafelli, birki, lerki og greni. Mælifletirnir sem teknir voru út í vor voru 13 talsins og að sögn Sæmundar eru fyrstu niðurstöður farnar að koma í ljós þótt úrvinnslu sé ekki að fullu lokið á mæliflötunum.

Í stuttu máli er niðurstaðan þessi:

TegundHlutfall í upphafiHlutfall núMeðalhæð nú
Birki 53% 48% 41 cm
Lerki 15% 18% 117 cm
Sitkagreni 26% 28% 112 cm

Sæmundur segir að þörf væri á stærri úttekt til að fá skýrari mynd en því miður vanti nákvæmari skráningu á upphaflegu gróðursetningunni. Eingöngu séu til upplýsingar um plöntufjölda. Tegundum var dreift nokkuð óreglulega um svæðið en þó var greni sett þar sem jarðvegur var bestur. Ekki var munur á því landi sem birki og lerki var sett í. Svo virðist sem birkið sé að jafnaði bitið fremur en kalið og því hafi það ekki náð meiri hæðarvexti en raun ber vitni, allt saman smárunnar. Sum lerkitrén eru tví- eða margstofna. Að hluta geti það verið vegna þess að þau hafi verið bitin mjög ung, telur Sæmundur,  en að öðru leyti sé kali um að kenna. Þó séu falleg tré innan um. Engin falleg björk var hins vegar sjáanleg. Eina tegundin sem lítur vel út er grenið sem er eins og ekkert hafi í skorist.

Sæmundur man líka eftir því að á sama tíma hafi verið gróðursett þarna um 70 birkitré, um 1,5 metra há, í sérstakan lund. Af þeim sjáist ekki nema ein á velli og auðsjáanlega hafi þau orðið fórnarlömb beitarinnar. Allt geti þetta bent til þess að ef rækta skuli hagaskóg með birki eða öðrum lauftrjám þurfi að reikna með lengri friðun í upphafi og einnig að hafa betri gát á beitartíma og beitarþunga en ef notast er við lerki. Hann telur að lerki hafi alla kosti birkis í hagaskógum auk þess að vaxa hraðar. Trúlega hafi það einnig meiri jákvæð áhrif á jarðveginn en birkið og þar með á þann beitargróður sem óskað er eftir í skógarbotninum.

Þess má loks geta að í undirbúningi eru tilraunir með sauðfjárbeit í skógarreitum í Kelduhverfi í Norður-Þingeyjarsýslu. Þetta er meistaraverkefni Guðríðar Baldvinsdóttur, skógar- og sauðfjárbónda á Lóni í Kelduhverfi, sem hún vinnur að í skógfræðinámi sínu við Landbúnaðarháskóla Íslands.



 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31