Guðni Th. Jóhannesson kjörinn forseti Íslands
Guðni Th. Jóhannesson hefur verið kjörinn forseti Íslands. Hann verður sjötti forseti lýðveldisins. Hann hlaut 39,08 prósent, en 71.356 Íslendingar kusu Guðna. Hylling verður fyrir utan heimili hans á Seltjarnarnesi klukkan fjögur í dag. Sýnt verður frá hyllingunni í beinni útsendingu í sjónvarpinu.
Guðni Th. er fæddur árið 1968, er með doktorspróf í sagnfræði og starfaði sem háskólakennari. Hann er kvæntur Elizu Reid og eiga þau saman fjögur börn. Frá fyrra hjónabandi á Guðni eina dóttur. Guðni var einn af níu forsetaframbjóðendum og hefur haft afgerandi forystu í skoðanakönnunum sem birst hafa á vikunum fyrir kosningar.
Þjóðin gekk til kosninga í gærdag og fyrstu tölur birtust upp úr 10 í gærkvöldi frá Suðurkjördæmi. Guðni viðurkenndi að fyrstu tölur hefðu komið sér á óvart, en tölurnar sýndu lítinn mun á milli hans og Höllu Tómasdóttur. Þegar líða fór á kosninganóttina fór atkvæðafjöldi að líkjast skoðanakönnunum og Guðni tók forustu.
Frambjóðendur yfirgáfu kosningavöku sjónvarpsins upp úr miðnætti og Guðni fagnaði þá sigri með stuðningsmönnum sínum á Grand Hótel. Fagnaðarlátunum ætlaði aldrei að linna.
Guðni sagði í ræðu sinni að kosningabaráttan hafi verið stressandi, sérstaklega fyrstu tölur. Hann treysti því að hann eigi áfram stuðning viðstaddra og landsmanna allra. Mikið verkefni bíði hans, fari fram sem horfir. Hann ætlar að leggja sig allan fram við að vera það sameiningarafl sem þjóðin vilji og eigi skilið.
Að lokinni ræðu sungu viðstaddir afmælissönginn fyrir Guðna, enda afmælisdagurinn hans genginn í garð, 26.júní.
Hylling verður fyrir utan heimili hans á Seltjarnarnesi og verður sýnt beint frá henni í sjónvarpinu klukkan fjögur í dag.