Guðmundur Steinarr Gunnarsson frá Þorfinnsstöðum: - Minningabrot frá Núpsskóla
Ég fór að rifja upp veru mína á Núpsskóla og kynni mín af sr. Eiríki J. Eiríkssyni, þegar ég heyrði Ingva Hrafn Jónsson lýsa sinni veru á Núpsskóla í sjónvarpi stöðvar sinnar ÍNN. Ingvi Hrafn sagðist hafa verið tvo vetur í stofufangelsi á Núpi hjá Sr. Eiríki og haft gott af því. Mér datt þá í hug að kannski hefði Ingvi Hrafn þurft að vera þar aðeins lengur til að ná betri árangri? „En nóg um það“ var sr. Eiríkur vanur að segja, þegar hann skipti um umræðuefni .
Sr. Eiríkur var frekar fáskiptinn en vildi hafa góðan aga á nemendum „það þarf að vera agi í hernum sagði Góði dátinn Svejk.“ Ég tel að sr. Eiríki hafi tekist vel að fá okkur til að fara að þeim reglum sem skólinn setti nemendum. Sr. Eiríkur hefur greinilega aðhyllst kenningar Grundtvigs og stefnu Norrænu lýðskólanna sem héraðsskólarnir voru mótaðir af í fyrstu og þá sérstaklega Núpsskóli sem var stofnaður á grunni þeirrar hugmyndafræði sem þar var höfð að leiðarljósi. Með breytingu á skólakerfinu á fimmta áratug síðustu aldar voru lagðar aðrar áherslur á námsgreinar og nemendum gert þar með kleift að halda áfram námi í menntaskóla. Þarna komu nýjar reglur og ný námsskrá sem skólinn varð að laga sig að.
Sr. Eiríkur var greinilega mótaður af hugmyndum ungmennafélaganna og kom það oft fram í ræðum sem hann flutti yfir okkur nemendum, en það var jafnan á sunnudögum. Við kölluðum þessar hugvekjur hans húslestur og minnist ég einnar slíkrar þar sem hann hóf mál sitt með að ræða um gömlu rafstöðina, vatnsaflsvirkjun í Núpsá. Bjarni frá Hólmi kom að Núpi og virkjaði fyrir skólann til lýsingar, en Bjarni var frumkvöðull í slíkum virkjunum og munu virkjanir hans hafa verið á annað hundrað alls, sem lýstu um sveitir landsins. Sr. Eiríkur lagði út af þessu og hvatti okkur til að varðveita ljósin hans Bjarna í hugum okkar og þær hugmyndir sem kynslóð Bjarna og ungmennafélögin höfðu kveikt með þjóðinni til að byggja upp heilbrigt og gott samfélag og stuðluðu að framförum og bættum hag þjóðarinnar á öllum sviðum. „Þið megið ekki slökkva ljósin hans Bjarna frá Hólmi“. Þannig endaði hann ræðu sína. Þegar Sr. Eiríkur var með þessar hugvekjur, þá hækkaði hann gjarnan róminn og gat orðið nokkuð hávær þegar hann vildi leggja áherslu á mál sitt.
Á laugardagskvöldum var sr. Eiríkur vanur að koma og stjórna plötuspilara þar sem leikin voru danslög svo nemendur gætu dansað, stundum voru haldnar kvöldvökur með ýmis konar skemmtidagskrá sem nemendur sáu þá gjarnan um sjálfir. Einnig man ég eftir nokkrum kvikmyndasýningum. Allir nemendur urðu að mæta í lestíma í skólastofum og var lestími til kl. 10 að kveldi að loknu kvöldmatarhléi. Eitt sinn kom Sr. Eiríkur með útvarp í lestíma og var tilefnið að frægur söngvari, ég held að það hafi verið Jussi Björling, sem var þá með tónleika í Reykjavík og var þeim útvarpað. Sr. Eiríkur var þarna að vekja athygli okkar á klassískri tónlist og söng og ræddi um áhrif tónlistarinnar á menningarlíf. Þetta segir kannski eitthvað um hverju Sr. Eiríkur vildi miðla til nemenda sinna þrátt fyrir lítinn tíma sem gafst frá náminu þar sem allt var miðað við staðlaða námsskrá. Þannig reyndi hann að vekja nemendur til umhugsunar um annað en það sem námsgreinar buðu upp á, en á þeim vettvangi var hann harður verkstjóri og vildi skilyrðislaust sjá þar árangur hjá nemendum sínum.
Þetta eru aðeins nokkur minningabrot sem birtast nokkuð skýrt, þegar ég hugsa um Sr. Eirík og koma strax upp, þegar ég reyni að fletta til baka á skjá minninganna.
Ég er sáttur við veru mína á Núpi. Þar eignaðist ég góða vini sem sumir eru nú horfnir af þessum heimi, en minningin er góð um veru mína í Núpsskóla hjá Sr. Eiríki og kynni mín af því fólki sem þar var.
Guðmundur Steinarr Gunnarsson.
-Mannlíf og saga fyrir vestan - hefti frá árinu 2012.
Útgefandi Vestfirska forlagið.