A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
16.03.2016 - 21:25 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

Grái herinn berst fyrir mannsæmandi kjörum og virðingu

Vasklegur hópur eldri borgara hefur gengið fram fyrir skjöldu og stofnað Gráa herinn, baráttuhóp innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Og setti vitaskuld upp facebook-síðu til að vekja athygli á málstaðnum og skapa vettvang þar sem fólk getur komið skoðunum sínum á framfæri. Þar eru stefnuskránni gerð ítarleg skil, farið yfir markmið og leiðir og hvernig herinn hyggst beita sér í ýmsum málefnum sem snerta eldri borgara með beinum hætti, t.d. varðandi eftirlaun og lágmarkskröfur, atvinnutækifæri, húsnæðismál, skattaívilnanir, starfslok, virðingu og reisn.

Í kaflanum Samstaða og aðgerðir segir: „Hagsmunamál eldri borgara hafa verið í brennidepli að undanförnu, þótt vissulega megi segja að hér sé um „eilífðarmál“ að ræða þar sem hvorki hefur gengið né rekið árum og áratugum saman. Stjórnmálaflokkar lofa bót og betrun, einkum fyrir kosningar, en minna hefur orðið úr efndum og þolinmæði margra því á þrotum.“

Í fararbroddi Gráa hersins eru Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona, Helgi Pétursson kontrabassaleikari, Ásdís Skúladóttir félagsfræðingur og leikstjóri, Bryndís Hagan Tómasdóttir framkvæmdastjóri og Sveinn Guð- jónsson blaðamaður á eftirlaunum, auk Þórunnar Sveinbjörnsdóttur formanns FEB og Gísla Jafetssonar framkvæmdastjóra FEB.

Á facebook-síðunni kemur fram að aðgerðahópurinn gerir sér ljóst að erfitt verður að þoka málum áleiðis nema til komi víðtæk samstaða eldri borgara. Mikilvægt sé því að hvetja eldra fólk til dáða og gera því grein fyrir réttarstöðu sinni og jafnframt samtakamætti. „Eldra fólk getur að vísu ekki nýtt sér verkfallsrétt til að ná fram kjarabótum, en það hefur kosningarétt og getur beitt atkvæðinu ef stjórnvöld fara út af sporinu og bera hagsmuni eldri borgara fyrir borð. Stofnun stjórnmálaflokks eldri borgara gæti þó reynst enn áhrifaríkari.“

Ekkert mun þó vera ákveðið um stofnun slíks flokks, en baráttuhópurinn er sannfærður um að með samstilltu átaki megi koma miklu til leið- ar til hagsbóta fyrir alla þá sem nú eru komnir á efri ár og þá sem á eftir koma. „Áhyggjulaust ævikvöld“ á ekki að vera innantómt slagorð heldur íslenskur veruleiki,“ segir ennfremur á facebook-síðu Gráa hersins.

 

Morgunblaðið miðvikudagurinn 16. mars 2016

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31